Meinvill og slúðrið

Slúður af netinu um tímasetningar sem upplýsingar berast frá Kína Okkar LID er 14 nóvember 2005

31 maí 2006

Bloggerinn bilaði

Og ég komst ekki inn í heilan dag og á meðan bara hrúgast slúðrið upp. Ég hef bara ekki undan hehe. En þar sem síaðsti póstur er svo langur ætla ég að leyfa mér að setja bara restina inn á morgun!

Vangaveltur

Hér kemur smá yfirlit yfir það sem er að velkjast um í slúðurheiminum þessa dagana. Ég held þetta sé svona ca það helsta, tek fram að þetta eru ekki endilega mínar skoðanir heldur bara það sem er verið að velta sér upp úr. Það er komið eitthvað aðeins meira en ég ætla að setja það í sér póst held ég bara:

Biðtími:

  • að biðin fari í 12 mánuði og haldi sér það
  • að biðin fari í 12-14 mánuði
  • að biðin fari upp í 18 mánuði haldi sér þar í einhvern tíma og fari síðan niður í 12 mánuði
  • að biðin fari í 18-24 mánuði en muni á endanum fara niður í 12 mánuði
  • að biðin fari nálægt 18 mánuðum hjá þeim sem eru með LID síðasta sumar en fari yfir 18 mánuði hjá þeim sem eru skráðir inn eftir það

Staðreynd: Tíminn hefur verið að lengjast og enginn veit hvenær hann hættir að lengjast.

Birting upplýsinga:

  • Það muni taka 3 mánuði að klára júní og síðan fari hlutirnir að ganga hraðar
  • Það taki 4 mánuði að klára júní
  • Það taki 4 mánuði að klára júní og 3 að klára júlí og hvað svo
  • Það taki 3 mánuði að fara yfir alla sumarmánuðina (hvern mánuð)
  • Að CCAA fái ákveðið mörg börn á mánuði og hætti þegar þau eru pöruð við foreldra sína hver svo sem dagurinn er (á að skýra fáa daga í hverjum mánuði að undanförnu)

Staðreynd: Það tók 3 mánuði að fara yfir apríl og maí og mun allavega taka 3 mánuði að fara yfir júní þar sem við erum bara komin að 15 (er þegar búið að taka 2).

Ástæður lengingar:

  • Miklu fleiri umsóknir vegna þess að Kína var orðið ættleiðingarland númer 1 vegna þess hve biðtíminn er stuttur
  • Hunan barnaránsmálið
  • Flutningur á nýja skrifstofu
  • Þjálfun nýs starfsfólks í kjölfar Hunan málsins
  • Færri börn yfirgefin
  • Betra efnahagsástand í Kína sem leiðir til fleiri innlendra ættleiðinga
  • Neikvætt fyrir Kína að ættleiða svo mörg börn úr landi, vilja breyta ímyndinni
  • Kína vill breyta ímyndinni sem land nr 1 í erlendum ættleiðingum og vill gera það fyrir Olýmpíuleikana

Staðreynd: 1. Það eru miklu fleiri umsóknir. Um það eru allir sammála. 2. Hunan hafði mikil áhrif. Frá Hunan koma um 30% allra barna sem fara til ættleiðingar erlendis. Engin börn komu þaðan frá því í desember og þangað til í apríl 3. Flutningar hafa tekið lengri tíma en reiknað var með.

Vangaveltur mínar: Varðandi Hunan. Það er verið að tala um að frá því pappírar berist og þar til þau sömu börn fari í pörun líði nokkrir mánuðir. Þannig að ef Hunan fór að senda pappíra í apríl þá muni þeir fara að hafa áhrif ca í sept/okt. sem ætti að geta orðið til þess að skriður komi á málin.

Hvað gerir CCAA?

  • Ekkert
  • Vill halda sér í 12 mánuðum
  • Setur upp einhver takmörk til að fækka umsóknum
  • Tekur inn umsóknir til og með desember 2006 en setji þá stopp í einhvern tíma
  • Hefur allt í hægagang þar til ca 2 mánuðum fyrir Olýmpíuleikana stoppar þá í nokkra mánuði. Fer í gang aftur með miklu færri umsóknum og lengri biðtíma
  • Hvetur fólk til að ættleiða börn með sérþarfir, þar muni kerfið ganga áfram mjög hratt

Staðreynd: CCAA hefur ekki komið með nein svör. Allar þessar vangaveltur eru tilraunir fólks til að ráða í stöðuna en það er bara CCAA sem veit stöðuna og veit hvernig framhaldið verður.

Breytingar á reglum:

  • Harðari reglur varðandi þyngd foreldra
  • Harðari reglur varðandi sakaferil
  • Harðari reglur varðandi áfengis- og fíkniefnaferil
  • Fólk í sértrúarhópum fái neitun
  • Ef annar aðili er í hjólastól fá neitun
  • Ef fólk hefur glímt við hættulega sjúkdóma verður að líða ákveðinn tími

Staðreynd: Þeir hafa verið að neita fólki sem gæti flokkast undir sértrúarhópa, einnig neitað fólki þar sem annar aðili var í hjólastól og eitt dæmi er um fólk sem var hafnað vegna þyngdar. Annað eru getgátur.

Áhrif á umsóknir í ferlinu:

  • Engin, þeir sem eru skráðir inn eru skráðir eftir þáverandi reglum
  • Breytingar á reglum hafa áhrif á alla, hvar sem þeir eru í ferlinu

Staðreynd: Í gamla daga (fyrir apríl 2006) voru breytingar á reglum ekki afturvirkar. Enginn veit hver er staðan í dag.

30 maí 2006

Tilkynningar en ekki fréttir

Þessar nýju tilkynningar á vefsíðu CCAA snúa því miður ekkert að biðinni. Ein er ræða forstjórans um styrk til munaðarleysingjaheimilis. Síðan er ræða einhvers annars starfsmanns hjá CCAA um styrk. Og þriðja er ræða forstöðumanns frá Shanxi héraði um styrk til hans heimilis. Sem sagt ekkert varðandi biðina eða annað.

29 maí 2006

CCAA

það var verið að vekja athygli mína á því að það eru komnar þrjár nýjar tilkynningar á heimasvæði CCAA. Þær eru hinsvegar enn á kínversku þannig að erfitt er að skilja þær. Ég sá að einhver var búin að prufa að setja þetta í þýðingarvél og útkoman var óskiljanleg langloka á ensku þannig að ég ákvað bara að bíða aðeins og sjá hvernig þýðingin þeirra verður (CCAA). Það er stundum svo erfitt að skilja þessar þýðingar úr þýðingarvélunum því þær þýða náttúrulega orðin bara beint án samhengis við setninguna. Mér sýndist þetta hinsvegar ekki vera neitt sem snýr að beint okkur, meira svona eitthvað yfirlit. En það kemur samt betur í ljós þegar "official" þýðingin birtist en það getur tekið nokkra daga.

Ein ástæða lengingar biðtíma

Ein af ástæðunum fyrir þessum lengda biðtíma hefur verið talin flutningur CCAA í nýtt hús. Það átti að eiga sér stað í apríl. Í dag kom bréf frá Jane Liedtke (hún er með yahoo grúbbu þar sem hún svarar fyrirspurnum um Kínatengd málefni og er búsett í Kína) þar sem hún segir að flutningarnir hafi ekki gengið eins vel og reiknað var með. Þeir séu enn að flytja og rafmagnsmálin hafi verið alveg að ganga frá þeim. Well, mér finnst þetta góðar fréttir þó þær séu ekki góðar fyrir þá. Ef rafmagnsmálin hafa ekki verið í lagi þá þýðir það að tölvurnar hafa náttúrulega ekki verið að virka eins og skyldi...voila og það verður seinkun. Þannig að um leið og þetta kemst í lag þá ætti að komast aðeins skriður á málin (þ.e.a.s. ef þetta er einn hluti seinkunarinnar sem við vitum jú ekkert um).

28 maí 2006

18 mánaða biðtími?

Nú er það svo... Stóru umboðin í Kanada og USA eru farin að senda fólki bréf og segja að því miður sé mjög líklegt að biðtími eftir upplýsingum fari upp í 18 mánuði. Kanada og Svíþjóð eru búin að halda þessu fram lengi en amerísku umboðin hafa ekki viljað taka undir þetta heldur hafa hvatt fólk til að sýna stillingu og minna á að í dag sé biðtíminn um 12 mánuðir. Þetta er sem sagt að breytast. Í yahoo grúbbunni voru nokkur bréf í morgun þar sem fólk segist hafa verið að fá bréf varðandi það að það skuli búa sig undir að biðtíminn geti farið 18 mánuði og WACAP (World Association for Children and Parents ) er jafnvel enn svartsýnna því það segir að fólk skuli búa sig undir 18-24 mánaða bið. Þeir rökstyðja þetta með því að segja að 12-18 mánaða bið sé raunhæf fyrir þá sem sóttu um síðasta vor og sumar en þeir sem hafi sótt um síðasta haust og síðar geti alveg eins átt vona á því að biðtíminn haldi áfram að mjakast upp á við.

Það fer nú alveg að vera spurning um þetta memo frá CCAA en slúðrið segir að það eigi að koma í næstu viku. Auðvitað veit enginn hvað þetta memo á að fjalla um en það væri nú alls ekki óeðlilegt að þeir gæfu eitthvað smá "hint" um hvað þeir telji sjálfir að biðtíminn fari í. Fólk heldur enn dauðahaldi í 12 mánuði og vísar í þetta sem forstöðumaðurinn sagði við verðandi pabbann í Denver(eða hvar sem það nú var) að hann með DesLID skuli reikna með upplýsingum í nóv-jan. En það eru samt æ færri sem trúa þessu ennþá. Fólk er eiginlega frekar að segja þetta svona eins og maður gerir þegar maður neitar að trúa einhverju... "...en hann sagði..." Eflaust er það þess vegna sem CCAA er svona tregt að gefa út upplýsingar. En komm onn það er samt alveg kominn tími á það. Það er eiginlega alveg kominn tími að maður fái að vita svona ca hvort maður sé að fara út á þessu ári eða seint á næsta.

Sumir hafa sagt að við eigum engan rétt á að fá þessar upplýsingar því við eigum engan rétt á að þeir segi okkur neitt. Ég er hinsvegar ekki sammála þessu. Ég tel að um leið og þeir skráðu upplýsingarnar mínar inn í kerfið hjá sér þá gerðum við samning og sem annar aðilinn að þessum samningi þá eigi ég rétt á að fá að vita hvað er að gerast. Hver sé framvindan í mínu máli. En þetta er náttúrulega svona utópíuhugsun því Kína vinnur ekki eftir svona aðferðum. Ég er búin að segja öllum ættingum og vinum að það sé ekki útlit fyrir að við fáum upplýsingar fyrr en í mars á næsta ári og mundum þá vera að fara í vorferð til Kína Jibbíjejæ... (ég er ekki svona kát eins og þetta hljómar). Ég læt fylgja með að auðvitað geti þetta breyst og ég sé alveg tilbúin að fara í næstu viku ef sú staða komi upp (búin með sprauturnar og sit bara og bíð haha) EN í augnablikinu er bara ekki útlit fyrir það! Ég vil ekki flokka þetta undir svartsýnishugsun heldur frekar raunæi en það er smá munur þar á milli þó ekki sé hann mikill.

Hvernig er það með kínverskunámið hópur 16? Við gætum orðið altalandi á kínversu ef við hendum okkur á námskeið núna haha alla vega virðumst við hafa nógan tíma!

26 maí 2006

Erum við öll eins?

Já það er spurningin. En ég rakst á mjög skemmtilegar (fræðandi) umræður um þessi mál. Butch Ward er bandarískur blaðamaður og á ættleidda dóttur frá Kóreu. Hann fór á námskeið síðasta haust "Writing About Race" og þar var einn hluti námskeiðsins að skrifa persónulega grein fyrir hina sem voru á námskeiðinu. Butch kaus að skrifa dóttur sinni bréf. Hann sýndi síðan dóttur sinni þetta bréf og hún meðal annarra hvatti hann til birta bréfið sem hann gerði. Þetta var síðasta haust. Í vor svarar dóttir hans síðan bréfinu og birtir það einnig. Það er mjög sérstakt að lesa þessi tvö bréf því eins og hann segir þá getum við ekki skilið hvernig það er að vera af öðrum kynþætti en okkar eiginn ekki frekar en aðrir geta skilið okkar. Við getum ekki sagt að við vitum hvað aðrir ganga í gegnum en við getum sýnt stuðning og reynt að skilja. Að vera til staðar og reyna að hjálpa. Butch hefur fengið heilmikil viðbrögð við bréfinu sínu og birtir hluta þeirra hér. Þarna eru svör frá fólki sem hefur ættleitt og fólki sem er ættleidd. Mjög athyglisvert að lesa þetta.

Bara smá slúður

Það er ekkert mikið að frétta. Þó er það staðfest að desember er komið inn í review room, það kom bréf frá einni konu á yahoo vefinn og hún er með LID12.12. Hún þurfti að veita einhverjar aukaupplýsingar vegna LifrabólguA. Sérkennilegt hvað kanarnir virðast þurfa að framvísa allt öðru en við. Þeir virðast þurfa að sýna fram á í umsókninni að lifrabólgaA sé í lagi meðan við þurfum bara að fara í sprauturnar áður en við komum en þurfum ekki að sýna fram á það í umsókninni. En hvað um það mér finnst allavega gott að heyra að des sé kominn svona langt því þá er alla vega styttra þangað til við í nov förum að færast yfir.

Það er mikið rætt um að CCAA sé að fara setja upp nýjar viðmiðunarreglur og partur af því sé þessi frávísun sem getið er um í síðustu færslu. Spurningin er hinsvegar hvenær þeir ætli að birta þessar nýju reglur og hvort þeir ætli að láta þær gilda frá með deginum sem þær eru settar eða hvort þær muni virka afturfyrir sig. Það hefur víst ekki gerst áður að þeir láti reglur virka afturfyrir en það virðist vera sem landslagið sé eitthvað allt annað þessa dagana.

25 maí 2006

Þyngd

Það eru búnar að vera heilmiklar umræður hjá RQ vegna þyngdar umsækjanda. Það virðist sem CCAA sé farið að herða á kröfum og sé farið að hafna fólki sem er of feitt. Umræðan fór af stað vegna konu sem var að fá senda höfnun. Hún er með JúlíLID og var komin í matching room. Það hefur ekki gerst áður (svo vitað sé) að fólki sé hafnað þar. Spurningin er hinsvegar hvort það séu ekki einhverjir fleiri þættir sem hafa áhrif á þetta? Þetta er ofsalega mikil umræða núna og mér skilst að svo sé í mörgum yahoo grúbbunum líka. Þetta er umræða sem hefur komið upp áður því mér skilst að CCAA hafi gefið út yfirlýsingu fyrir nokkrum mánuðum að þeir væru að herða á þyngdartakmörkunum. Ég las bréf frá einni konu sem hafði mjög miklar áhyggjur af þessu og í heimsókn til Kína í janúar spurði umboðið hennar út í þetta. Hvort CCAA færi ekki eftir læknaskýrslunni. Honum var svarað að þeir tryðu ekki læknunum (hvaða bull er þetta???) og vildu frekar hringja beint í umboðið ef þessi aðstaða kæmi upp og fá skilgreiningar hjá þeim varðandi hvort þessi aðili væri of þungur. Ég hef heyrt að viðmiðunarreglan hjá CCAA sé 350-500 pund (kann ekki að umreikna þetta í kg) en veit ekki hvort það er satt.

Ég veit ekki hverju maður á að trúa. Mér finnst þetta hljóma alveg gjörsamlega ótrúlega. Ef viðkomandi er með læknisvottorð upp á góða heilsu er þá hægt að kjósa að trúa ekki lækninum? Og að fá höfnun í matching room, það er víst eitthvað sem er alveg nýtilkomið. Áður var pottþétt að ef maður komst þangað þá var umsóknin örugg. Þetta er eiginlega bara til þess ætlað að setja meira stress á mann, ekkert annað. Ég var fyrst að hugsa um að sleppa því að skrifa um þetta en ákvað svo að þar sem þetta er í umræðunni á öllum helstu Kínasvæðunum þá þyrfti þetta að vera hér líka svo við séum meðvituð um að allt getur gerst. Persónulega þá er ég farin út að hjóla!

24 maí 2006

PS

Ég verð að viðurkenna að mér líður eins og verið sé að gera grín að mér. Ég er með sömu tilfinningu og ég sé með gulrót fyrir framan mig og í staðinn fyrir að nálgast gulrótina er bara lengt í bandinu og ég látin hlaupa áfram. Við hvern mánuð sem bætist við biðina hjá okkur virðist tíminn lengjast þangað til við fáum upplýsingar. Er ég sú eina sem hef þessa gulrótartilfinningu?

Bjartsýni sem lítur út eins og sverasta svartsýni!

Ég setti upp þessa líka flottu bjartsýnisspá. Leið bara skratti vel og var svona sönglandi með sjálfri mér meðan ég setti þetta upp enda var ég ekkert að skoða það sem ég var að setja upp, heldur bara telja og spá og spegulera. Síðan leit ég yfir niðurstöðurnar og þá féll bjartsýnin til jarðar eins og sprungin blaðra. Þetta er hræðileg spá þannig að ég ákvað að vera ekki að setja upp neina svartsýnisspá líka. Spáið bara í því hvernig hún myndi líta út ef þetta er bjartsýnisspáin. Málið er að júní tekur ábyggilega tvö skipti enn, nema þeir hysji upp um sig og taki smá skurk. Það er samt ekkert óeðlilegt að þeir fari að birta fleiri daga í einu eftir júní og þá er ég smá svartsýn að þeir hoppi upp í fulla mánuði en hver veit svo sem. þannig að ég geri ráð fyrir 21 degi í þessum litlu mánuðum. Síðan kemur Nóvember sem samkvæmt öllum spám er hryllilega stór þannig að ég gef mér að þeir séu að fara yfir hann á fjórum mánuðum rétt eins og þeir eru búnir að vera að gera að undanförnu. Vonandi hef ég samt rangt fyrir mér! Og það er ekki oft sem ég óska þess.














Þetta er ekki skemmtileg spá en því miður er útlitið ekki neitt betra en þetta. Hinsvegar er nýtt slúður á floti sem segir að CCAA ætli að fara birta stöðuspár þannig að ef þeir gera það þá vitum við aðeins meira og getum kannski farið að slá tímann fastann. En þangað til verði þið að notast við þetta...

Nýjustu upplýsingarnar

sem komu í gær ná til 15 júní. Í síðustu spá hafði ég gert ráð fyrir að þeir næðu til 17 júní. Munar tveimur dögum, það er ekki svo slæmt. Ég hefði auðvitað viljað sjá meira en hér er þessi síðasta spá sem var gerð í apríl (smella á myndina til að stækka hana):






Ég er að spá í að búa til nýja spá á eftir en þarf aðeins að hugsa hana betur. Reyni að setja hana inn eftir hádegi.

23 maí 2006

You gotta be kidding

22 maí 2006

Nú fer spennan að vaxa

Upplýsingar gætu komið í lok þessarar viku eða í byrjuna næstu viku og nú snýst allt um það hversu langt inn í júní þær koma til með að ná. Það eru þrjár tilgátur í gangi:
  1. Til og með 15 júní
  2. Til og með 20 júní
  3. Eitthvað fram í júlí

Þriðja væri best, lang,lang best en miðað við undanfarna mánuði frekar ólíklegt samt. Það munar þremur vinnudögum á 1 og 2. Það er ekki mikið en samt þrír dagar.

Fólkið sem er að fá ferðaleyfin sín núna er að fá þau rétt rúmum þremur vikum eftir að upplýsingar bársut þeim. Það er mjög stuttur tími skilst mér og eiginlega hálfundarlegt hvað það virðist taka stuttan tíma þegar biðin eftir upplýsingunum hefur verið að lengjast von úr viti. En það er auðvitað sitthvor deildin sem sér um þessa hluti og eflaust margt annað sem kemur inn í þetta.

Smáupdate frá RQ. Þar er einhver með LID 30.júní sem fékk þær upplýsingar að ef næstu upplýsingar næðu til 18 eða 20 júní þá fengju þau upplýsingarnar sínar næst en ef upplýsingarnar næðu aðeins til 15 þá skyldi hún reikna með tveimur mánuðum til viðbótar. Sem sagt ef upplýsingarnar ná aðeins til 15 þá getum við reiknað með að þeir fari yfir júní á fjórum mánuðum í stað þeirra þriggja sem allir eru að reikna með núna. Hvar endar þetta eiginlega?

19 maí 2006

Jákvætt slúður svona inn í helgina


Það er ekki víst að þetta sé neitt sem er neitt að marka, en mikið rosalega er gott að hafa eitt jákvætt slúður svona rétt fyrir helgina. Ég ætla að trúa því svona rétt þangað til ég heyri enn eitt neikvætt.

Sem sagt algjört slúður og algerlega á slúður formi (einhver sem þekkir frænku einhvers sem er bróðir Jónu sem Hildur þekkir..eða þannig):
Einhver sem er með 5júlíLID fékk þær upplýsingar frá sínu umboði að CCAA væri vonandi að senda upplýsingar yfir stærri hóp en áður var talið. Umboðið taldi sig ekki geta sagt hvenær lokadagsetningin væri en var vongott um að þetta fólk væri í þeim hópi!!!!
Já já ég veit..þetta er mjög loðið, ekki nafn á umboðinu eða staðsetning og allt það en mig vantaði svona jákvæðar fréttir rétt fyrir helgina ;)

Same old...

Ekkert að gerast nema auðvitað að ferðaleyfin eru að berast þeim sem fengu upplýsingar í síaðsta holli. Það hefur oftast verið þannig að næstu upplýsingar berast ca. viku eftir að ferðaleyfin berast þannig að næstu upplýsingar gætu borist í lok næstu viku eða byrjun næstu. Spennandi ;)

RQ vitnar í grein frá evrópsku umboði þar sem talað er um að CCAA vilji halda tímalengdinni í 11-12 mánuðum (ekkert nýtt þar) og síðan tala þeir um að aldur barnanna komi ekki til með að breytast neitt en fólk verði að gera sér grein fyrir að það geti fengið barn sem er eldra en það sem þau biðja um. Mér skilst nú að þetta eigi frekar við USA þar sem flest Evrópulöndin (alla vega norðurlöndin) eru komin með þá skilmála að sækja um 0-24 mánaða. Kanarnir eru hinsvegar að sækja um 0-6 mánaða sem ég skil nú ekki alveg því mér hefur alltaf skilist að ekki sé leyft að ættleiða börnin fyrr en að undangengnum einhverjum mánuðum þar sem auglýst er eftir foreldrum eða öðrum ættingjum og börnin því alltaf orðin eldri en 6 mánaða.

Sá hins vegar voða sæta skýringu í einu bréfi. Þar er verið að tala um aldur barnanna og konan sem um ræðir hafði fengið 17 mánaða barn. Hún sagði að jú víst hefði hún misst af fyrstu skrefum barnsins síns en það væru svo mörg önnur fyrstu skref sem hún hefði fengið að upplifa að hún væri alveg sátt. Mér fannst þetta vel að orði komist ;)

18 maí 2006

Samantekt

Ekki hefur mikið breyst frá því í gær nema nú eru það þrjú umboð sem segja að biðtíminn eftir upplýsingum geti farið í 18 mánuði eða lengur. Flest umboðin halda sig hinsvegar við 11-14 mánaða biðtíma. Frönsk kona segist hafa talað við yfirmanninn á ættleiðingarumboðinu sem hún er með og hann segir eftirfarandi: Umsóknir sem eru að berast til CCAA eru nærri tvöfalt fleiri en fyrir tveimur árum en að CCAA sé að reyna að vinna sig út úr því. Þau hafi ráðið fleira fólk sem sé núna í þjálfun og þegar því sé lokið gæti farið að koma skrið á hlutina. Honum var sagt af starfsmanni CCAA að biðin gæti farið upp í 18 mánuði fyrir þá sem væru með DesLID 2005 og seinna en júní-okt LID ætti ekki að fara yfir 12 mánaða biðtíma

OK ég veit ekki með þetta franska slúður. Hvar er t.d Nov LID?? Það erum við í hópi 16. Erum við þá á mörkunum? Málið er hins vegar að mér skilst að CCAA gefi ENGUM upplýsingar. Þær upplýsingar sem eru taldar koma frá CCAA eru þá frekar frá einhverjum starfsmönnum en ekki opinberar yfirlýsingar. Þannig að þeir eru í rauninni bara að giska á þetta alveg eins og við hin. Kanarnir eru afskaplega æstir yfir þessu öllu og eru farnir að skoða önnur lönd til að athuga með biðtíma þar en mér sýnist á því sem þeir eru að bera saman að það sé nú ekki alltaf eins flott og það lítur út fyrir. 2-5 mánaða biðtími sem er talinn eðlilegur í einu landi hefur teygst upp í 1,5 ár vegna einhverra lögfræðilegra álitamála og allan tímannn bíður fólkið og er komið með upplýsingar með mynd og allt. GOSH held það sé þá betra að bíða og sjá til. Ekki það að við gætim skipt (eða haft áhuga á því) ef sú staða kæmi upp.

En til að gera langa sögu stutta þá er svartsýni ríkjandi í slúðurheiminum, svona almennt. Ég er hinsvegar bjartsýn í dag og ætla að halda mig við 12-14 mánaða tímann. Ættum kannski að fara að skoða þessar jólakanaríferðir sem við vorum að ræða um síðustu helgi hehe

ps..hver hefði trúað að það kæmi að því að ég segist vera bjartsýn með 12-14 mánaða bið eftir upplýsingum? Svona breytist þetta eftir hægðum og lægðum... ;)

17 maí 2006

Og þá kom að slæma slúðrinu...

það hlaut að vera. Það er búið að vera svo rólegt og allir svo jákvæðir. Þetta var sem sagt bara þetta fræga logn á undan storminum. Spánn er að gera allt vitlaust.. en það skal þó tekið fram að þetta er bara eitt umboð á Spáni. Hinsvegar segjast Spánverjar reikna með að önnur spænsk umboð fylgi í kjölfarið og komi til með að birta þessa yfirlýsingu líka. Hér er linkur inn á þýdda síðu sem er frá þessu umboði: Þýðing Ef þetta er satt þá eru þetta ömurlegar fréttir. En þetta er auðvitað alls ekki staðfest, þetta er bara eitt umboð að vara sína skjólstæðinga við. Það sem ég er hins vegar að pæla er hversvegna telja þeir sig vita þetta? Afhverju fá þeir svona upplýsingar en ekki aðrir? Ég bara skil þetta ekki alveg...

Úrdráttur:
1. Umsagnir hafa dregist á langinn vegna fjölda umsókna á síðasta ári (2005). 10.000 umsóknir komu fyrir það ár (hvað með þessar 21.000 sem alltaf er við að vitna í??)
2. CCAA getur aðeins afgreitt milli 7-800 á mánuði. Þess vegna hefur hægst á heildarferlinu því það koma um 2000 umsóknir á mánuði.
3. Ef þessu heldur áfram telur CCAA að bið eftir upplýsingum geti farið í 18 mánuði og jafnvel lengur.
4. CCAA vill þó taka fram að þrátt fyrir endurtekinn orðróm um að þeir séu að fara að loka á ættleiðingar þá sé það alls ekki rétt, þeir muni halda áfram bara á lengri tíma en áður.

Hvaða bull er þetta????? hvað með 12 mánuðina sem slúðrið segir að þeir vilji halda??? Og af hverju eru þetta upplýsingar sem Spánverjar eru einir með? Afhverju eru ekki stóru umboðin í USA með þetta ef þetta er rétt?

Eigum við ekki bara að taka þetta sem "worst case scenario"?? Alla vega þangað til við sjáum næstu upplýsingar?

Hinsvegar er eitt sem við vorum að ræða nokkrar í gær. EF og það er EF það er rétt að þeir eru að fá whatever margar umsóknir umfram það sem þeir geta afgreitt þá liggur það í augum uppi að afgreiðslutími umsókna fer framúr 12 mánuðum. það er náttúrulega bara einföld stærðfræði að reikna það út. Ef það eru 21.000 umsóknir á 12 mánaða tímabili en afgreitt bara 13.000 (eða hvaða tölur sem þetta nú eru) þá er það auðsjánlegt að það sem fer umfram ársafgreiðslu hlýtur að bíða lengur en 12 mánuði.

Og ég sem var svo glöð og bjartsýn í morgun. Var næstum hætt við þessa bölsýnisspá okkar 16 hóps að við færum ekki fyrr en í mars.. en samkvæmt þessu...

Allt við það sama

Ekkert nýtt að frétta, held það sé kannski af því það eru allir búnir að reikna með að næstu upplýsingar nái til 20 júni og það er ekki endalaust hægt að velta sér upp úr því.

CCAA er hinsvegar með nýja tilkynningu á heimasíðunni sinni (16. maí) og ég átta mig ekki á því hvort hún er slæm eða ekki: ...that chest X-ray examination should no longer be included to the regular physical examination items of the adopted children. Therefore, the CCAA cancels the chest X-ray examination as the regular physical examination item of the adopted children.

Sem sagt röntgenmyndatökur eru ekki lengur hluti af tiltekinni læknisskoðun ættleiddra barna. Nú verðið þið eiginlega að kommentera á þetta sem vitið meira en ég. Er þetta gott eða slæmt?

16 maí 2006

Ekki mikið en samt eitthvað

Það er ekki mikið slúður á ferðinni en samt eitthvað. Fólk virðist enn halda fast í það að næstu upplýsingar verði til 20 júní EN það eru þó nokkrir sem reikna með að í næsta mánuði þá fái 15Júli LID upplýsingar. Ég fékk smá taugaveiklunarkipp í hjartað þegar ég sá það...því það mundi þýða að mjög líklega fengi ágústhópurinn sínar upplýsingar í júlít... en þetta er náttúrulega algerlega í slúðurformi á þessu stigi. Kemur frá Bretlandi og konan sem póstaði þetta segist halda að umboðið hennar hafi kannnski verið að segja bara það sem þau vildu heyra.. en hver veit. Þetta er allavega jákvæðasta slúður sem ég hef heyrt lengi ;)

Annað slúður er frá Kanada. Þar er fólk mikið að spá í að skipta yfir í SN (special need) ættleiðingu. Þar var fólki með LID í desember 2005 ráðlagt að skipta ekki á þessu stigi því það tæki 6-8 mánuði að fá SN barn og þau væru því betur sett í röðinni sem þau eru í núna. Þetta hefur verið túlkað sem svo að CCAA séu að reyna að halda sig við 12 mánaða biðtímann sem er líka bara nokkuð jákvætt.

15 maí 2006

Draumar og draumráðningar

Fréttir ættu að berast í næstu viku um það hversu langt inn í júní okkur tekst að komast. Sjáið bara hvað ég er orðin samdauna, ég er farin að segja "okkur" en ekki "Kína" eða "CCAA". Tengdamóður mína dreymdi hins vegar góðan draum með mörgum kínverskum börnum og við túlkuðum hann á þann veg að í næsta holli yrðu miklu fleiri dagar en við höfum verið að reikna með! Wow það væri nú skemmtilegt ;) þannig að það er ekki nóg með að ég sitji með krystalskúluna og rýni í hana heldur er ég farin að reyna að túlka drauma líka. Hvernig endar þetta?

Hópur 16 hittist um helgina og tók stöðu á málunum. Við vorum mjög yfirveguð og raunsæ og reiknum því með að fara ekki út fyrr en á nýju ári (en ef draumurinn rætist gæti það breyst hehe). Við erum hinsvegar tilbúin núna!

Vonandi get ég sett inn eitthvað almennilegt slúður í dag.

13 maí 2006

Fjöldi barna frá Kína

Hollenskt umboð sem heimsótti Bejing fyrir nokkrum vikum fékk þær upplýsingar að árlega berast umsóknir um 24.000 börn frá Kína en Kína gefur leyfi fyrir 13.000 ári (erlendar ættleiðingar). Þessi tala 13.000 muni halda sér í nokkur ár en síðan ætli þeir sér að minnka fjöldann smá saman. (Ég hef séð þessa 13.000 barna tölu áður þannig að líklegast er hún nokkuð nærri lagi). Ein ástæðan fyrir því að þeir muni í framtíðinni draga úr fjölda barna til erlendra ættleiðinga sé Hague sáttmálinn en í honum felst að þeir munu reyna að koma fleiri börnum í innlenda ættleiðingu en áður hefur verið. Mér skilst að þessi tala sé sú sama og 2005.

Fólk er enn að ræða mögulega seinkun og það er búið að vera hræðsluáróður í gangi um að biðin komi til með að fara upp í 22 mánuði og að sept/ágúst eigi ekki að reikna með upplýsingum fyrr en í nóv/des. Persónulega held ég að þetta sé rugl því til þess að þetta gerðist þyrfti að koma nokkrir mánuðir með bara viku upplýsingaskammti (eins og hefur verið að gerast en er vonandi að breytast). Mér sýnist á könnunum RQ að júlí/ágúst/september séu frekar litlir mánuðir (tiltölulega fáar umsóknir) þannig að afhverju ætti það ekki að ganga smurt og fljótt fyrir sig? það er ekki fyrr en kemur að nóvember (stuna) sem virðist sem enn einn risa mánuðurinn sé á ferðinni og svo mars á næsta ári.. hann lítur út fyrir að vera HUGES.

Það er samt merkilegt hvað það er lítið búið að vera um slúður. Flestir tala um að næstu upplýsingar ættu að ná yfir LID20 júní.

11 maí 2006

Skýrsla CCAA

Eftirfarandi frétt er á heimasíðu CCAA. Þetta er tilkynning til ættleiðingarsamtaka um allan heim og er sett inn 29. apríl. Þetta er ekki mjög áberandi frétt því það kemur á hana árið 2005 en ekki 2006, einhver villa í kerfinu hjá þeim greinilega. Bréfið sjálft er samt dagsett í apríl 2006.

Þeir segja þarna að þeir hafi lokið við að meta öll erlendu umboðin vegna ársins 2005 og fari þar eftir reglum CCAA Provisional Regulations and Requirements to Foreign Adoption Agencies Regarding International Adoption thru China.

132 umboð voru metin í eftirfarandi sex flokkum:
1. Nákvæmni umsóknar
2. Mat félagsráðgjafa (home study)
3. Skýrslum sem eiga að berast til CCAA eftir að ættleiðingu er lokið
4. Ættleiðingarferlið
5. Ættleiðingar á börnum með sérþarfir
6. Meðhöndlun þóknunar

Flest umboðin voru að fara eftir öllum reglum sem CCAA setur og sumir voru að fara fram úr væntingum. Þó eru 17 umboð sem uppfylla ekki það sem til þarf. Ef það gerist þrjú ár í röð (og árið 2005 er talið með) þá fellur niður leyfi þeirrar stofnunar til að ættleiða börn frá Kína. Í framtíðinni ætlar CCAA að birta útkomuna úr þessu mati á heimasíðu sinni og benda fólki að sækja um hjá umboðum sem eru að gera góða hluti.

Mér finnst þetta soldið athyglisvert. Þeir birta ekki niðurstöður ársins 2005 á heimasíðunni en segjast munu gera það frá og með næsta ári. Þetta bendir nú bara til eins og það er að þeir eru ekki að hætta erlendum ættleiðingum í bráð (það er búinn að vera þó nokkur taugatitringur á Netinu um það og er það byggt á hægagangi síðustu mánaða). Þarna eru þeir að reyna að vera aðeins gengsærri en þeir hafa verið. Persónulega finndist mér að þeir gætu þá líka birt fjölda umsókna í hverjum mánuði á síðunni sinni en ég veit að það er til of mikils mælst því þetta er hápólitískt mál og alls ekki svona einfalt eins og mér finnst það vera. Enda er ég ekki alveg hæf til að meta það þar sem ég er að bíða með öndina í hálsinum eftir mínu barni.

En þetta sýnir þó að við sem fáum börnin okkar verðum að vera dugleg að standa við okkar þátt sem er t.d. að skila þessum eftirskýrslum sem eiga að koma einhverjum mánuðum eftir að börnin koma heim. Það getur haft áhrif á mat ársins ef við skilum ekki á réttum tíma. Ég sá smá klausu á einum stað þar sem segir að búið sé að breyta þessum skýrsluskilum þannig að fyrsta skýrslan eigi að koma strax eftir heimkomu. Hefur einhver heyrt eitthvað um það? Fyrsta skýrslan hefur verið sex mánuðum eftir heimkomu. En ég þarf nú svo sem ekki að hafa áhyggjur af þessu strax... fyrst er nú að fá barnið hehe

Fjölskylda sem við þekkjum?

Við sem erum að bíða eftir börnum verðum fljótt algerlega háð heimasíðum þeirra sem eru þegar komin með börn sín. Þannig er þetta bara. Það er alltaf skemmtilegra að skoða þær síður þar sem maður þekkir eitthvað til þó manni finnist maður þekkja alla eftir að hafa legið yfir öllum síðunum. Og hvers vegna er ég að vekja máls á þessu? Jú á "röltinu" um netið rakst ég á kunnuglegt fólk Traveling daughters. Þeir sem hafa horft á myndina China´s Lost girls nokkrum sinnum ættu að kannast við fólkið. Þau voru sem sagt að sækja aðra dóttur og það er gaman að skoða myndirnar.

10 maí 2006

Hvernig gengur umsóknunum?

Ég fann þessar upplýsingar um daginn og fannst þær áhugaverðar. Þetta er frá Childrens Hope International og var birt í mars 2006. Ég reikna með að okkar pappírar fari svipaða leið í gegnum kerfið.

1. CHI Beijing skrifstofan fer með umsóknirnar til CCAA (í okkar tilfelli fara þeir eflaust beint til CCAA).

2. Umsóknirnar berast CCAA administration skrifstofunni og það getur liðið allt að því mánuður þar til þær eru skráðar inn. Um leið og búið er að skrá umsóknina fær hún LID nr og biðin hefst formlega.


3. Umsóknin bíður eftir að byrja í ferlinu og er það um það bil 3-4 mánuðir í dag.


4. CCAA administration skrifstofan sendir umsóknirnar yfir í Bridge of Love (BLAS) þar sem þeir fara yfir þýðinguna á skjölunum. Þetta getur tekið 2-3 mánuði.


5. Umsóknir fer í Department I í skoðun. Getur tekið 1-2 mánuði.


6. Umsóknir sendar áfram til Department II í pörun. Þetta getur einnig tekið 3-4 mánuði. Umsóknirnar eru paraðar nokkrum vikum áður en þær fara á stig 7.


7. Tilvísunin (referral) er sent yfir í Administration skrifstofuna til undirskriftar af yfirmönnum CCAA og síðan sent til CHI (í okkar tilfelli er það auðvitað ÍÆ). Þetta getur tekið nokkrar vikur.


8. Þú færð tilvísunina – gleðidagurinn mikli. Þú kemur samþykkinu til baka til CCAA (eða til ÍÆ og þeir koma því áfram??).


9. CCAA sendir þér ferðaleyfi (travel approval = TA) um að koma til Kína til að ná í barnið. Þetta tekur um það bil mánuð.


10. Ferðalagið til Kína hefst til að ná í barnið og ljúka ættleiðingarferlinu. Þetta er ca 6-8 vikum eftir að tilvísunin hefur borist.

Núverandi biðtími frá LID til tilvísunar er 10-12 mánuðir.

Ég veit ekki með ykkur en mér finnst þetta áhugavert. Ekki verra að vita ca hver gangurinn er. Hjá okkur í hópi 16 erum við ábyggilega á stigi 5 meðan hópur 15 er eflaust á stigi 6. Hljómar þetta ekki bara nokkuð sennilega. Þá erum við allavega hálfnuð í gegnum ferlið og það er frábært. ;)

09 maí 2006

Meira varðandi lengd biðtímans

Það er ennþá mjög misjafnt hvað ættleiðingarumboðin eru að gefa upp langan biðtíma og hvers vegna þau halda að tíminn sé að lengjast. Þetta virðist vera soldið mismunandi eftir löndum og virðast Kanada og Svíþjóð gefa upp lengsta tímann eða allt að 18 mánuðum. Aðrir halda sig við 10-12 mánuði og fara kannski upp í 14 mánuði.

RQ segir frá fundi sem var haldinn í evrósku umboði þar sem mættir voru verðandi foreldrar og þeim var sagt að vegna uppákomunnar í Hunan hefði mjög margt í starfsháttum CCAA verið breytt. Þeim var sagt að biðin væri 12 mánuðir og gæti aukist. Þeim var einnig sagt að CCAA væri að fá mjög mikið af upplýsingum um heilbrigð börn (og það stangast á við fyrri upplýsingar sem segja að börnum hafi fækkað en ég held líka að það sé kjaftæði, þeim hefur ekki fækkað) og það gæti vegið upp á móti lengd biðtímans. Annar fundur var haldin á öðrum stað og þar var foreldrum sagt að margir stjórar hefðu verið látnir fjúka og þjálfun hinna nýju hefði tekið lengri tíma en reiknað var með því allir vildu jú hafa þessa hluti á hreinu þannig að ekki kæmi upp annað svona mál. Hinsvegar var sagt á þessum fundi að málin gætu farið að ganga hraðar fyrir sig strax í ágúst (það væri náttúrulega óskandi en miðað við stöðu fyrri mánaða held ég að það sé ekki vert að leggja of mikinn trúnað á þetta, held þetta sé frekar svona í "óska" stíl frekar en staðreyndastíl).

Þetta er nokkuð sem ég var búin að sjá annarstaðar líka, þetta með Hunan og nýja starfsmenn sem hefði þurft að þjálfa upp. Það virðist því sem Hunan hafi verið að hafa miklu meiri áhrif en áður hefur verið talið. Hinsvegar er það svo sem ágætt líka því það er jú hræðilegt þegar upp koma svona mál og fólk fer að hafa áhyggjur af því að börn þeirra séu kannski börn sem hafi verið rænt af sínum foreldrum og seld til barnaheimilisins. Alla vega vil ég frekar bíða nokkrum mánuðum lengur og vera eins viss og hægt er um að allt sé löglegt og ekki sitji einhverjir í sárum yfir barninum sínu.

08 maí 2006

Ekkert að frétta enn

Þá er komin ný vika og ekkert að frétta enn. Það er búið að vera vikufrí í Kína þannig að allt hefur verið meira og minna lokað. Mér skilst að það sé ekkert óvenjulegt að CCAA vinni um helgar til að ná upp svona fríum en til hvers eru þeir þá að fara í frí ef þeir vinna um helgar í staðinn? Aumingja fólkið. Auðvitað vil ég fá upplýsingar sem fyrst en ég er ekki svo æst að ég geti ekki unnt fólki að fá þau frí sem eru tilskilin ;)

Í lok þessarar viku gæti slúðrið byrjað að fara af stað aftur, þá er mánuðurinn hálfnaður og ef upplýsingar eru að koma á svipuðum tíma og síðast þá er það í kringum 24-26 maí.

05 maí 2006

Hvað er Guānxi?

Þar sem það er ekkert að frétta í dag ákvað ég að breyta bara til og skrifa um eitthvað allt annað, eða smábrot af kínverskri menningu. Menning þeirra er jú allt öðru vísi en okkar, svo ólík að oft verða árekstrar þegar fólk veit ekki betur. Eitt orð sem er mikið notað er Guānxi. Þetta er mikið notað í viðskiptum og þýðir "samband". Í kínverskum viðskiptaheimi getur þetta einnig þýtt margskonar samband og tengingar milli ólíkra aðila í viðskiptum (sambærilegt við network). Kannski er hægt að segja að þetta líkist mest "ef þú klórar mér á bakinu þá klóra ég þér". Sem sagt það er mikilvægt að gera mönnum greiða reglulega og þá ganga hlutirnir greiðlega fyrir sig og greiðarnir koma á móti. Þetta hefur stundum orðið Evrópubúum erfitt að skilja og þá eiga þeir oft erfitt uppdráttar í Kína. Það er þarna sem gjafirnar koma inn. Þær ýta undir gott Guānxi sem er mikilvægt á öllum stigum. Eitt þarf að vera á hreinu, þetta er ekki það sem við vesturlandabúar köllum mútur, þetta er af allt öðrum toga. Ef einhver á inni gott Guānxi og lendir í einhverri klemmu þá fer networkið af stað og hjálpar þessum aðila. Ef þessi sami aðili hefði hins vegar átt slæmt Guānxi þá fengi hann að sitja í súpunni og bjarga sér sjálfur.

Varðandi ættleiðingarmálin þá er það minn skilningur að það sé ekki endilega stærð ættleiðingarumboðsins eða fjöldi barna sem ræður hvort viðkomandi eiga gott Guānxi. Nei það fer alveg eftir því hvernig samband hefur myndast milli Kínverja og þeirra sem þeir eiga í viðskiptum við. Þeir kjósa að eiga í persónulegum viðskiptum og vilja þekkja þann sem þeir eiga við. Ég reikna með að það sé partur af heimsókninni um daginn, að koma á persónulegum samböndum.

Guānxi þarf þó ekki endilega að vera tengt peningum. Þú getur átt gott Guānxi hjá Kínverja ef þú umgengst hann af virðingu meðan aðrir sýna honum óvirðingu. Einnig getur gott Guānxi skapast af því að standa saman þegar tímarnir harðna. Að gefast ekki upp hver á öðrum. Þannig getur Guānxi tekið á sig margar myndir og er alls ekki litið á það sem einhverskonar mútufyrirbæri. Þetta er viðurkennt í kínverskri menningu og menn leggja oft nokkuð á sig til að tryggja sér gott Guānxi.
heimild

04 maí 2006

Tek það til mín

Í gærkvöldi fékk ég skammir fyrir að vera ekki nógu dugleg að skrifa þó það séu engar fréttir. Ég tek það til mín og lofa bót og betrun.

Það eru í rauninni ekki neinar fréttar síðan í gær, þó eru þrennar upplýsingar á síðunni hjá RQ:
  1. Stórt umboð í USA hefur sagt að þeir sem eru með 20 júní LID skuli ekki reikna með upplýsingum fyrr en síðast í júní eða fyrst í júlí.
  2. Lítið eða miðlungs stórt umboð (USA)er að segja sínu fólki að þeir reikni með að næstu upplýsingar nái til 18-21 júní (einhverstaðar á milli þessara dagsetninga) og síðan reikni þeir með að CCA fari að birta fulla mánuði aftur, ekki bara nokkra daga eins og hefur verið undanfarna mánuði.
  3. Velþekkt umboð (USA) hefur sagt við júní 29LID að þeir séu vongóðir um að þeir fái sínar upplýsingar í lok júní.

Ok. þetta er alveg í takt við ágiskunarblaðið hér neðar á síðunni. Ég giskaði þar á að næstu upplýsingar næðu til 17 júní og í lok júní mundu koma upplýsingar fyrir restina af júní og síðan mundu þeir hoppa yfir í fulla mánuði. Það væri alveg brilljant bara. Auðvitað væri best ef þeir mundu skella sér á tvo mánuði í einu en hey.. einn mánuður er alveg flott bara ef þeir gætu haldið sér við það ;). Það þýðir að við erum pottþétt með jólabörnin okkar en þetta eru jú bara ágiskanir svona ennþá.

03 maí 2006

Ekkert nýtt að frétta

Það er frekar rólegt á slúðurvígstöðvunum núna. Fólk er að melta síðustu upplýsingar og skoða myndir af börnum hjá þeim sem eru með síður opnar. Ég er búin að skoða nokkrar og fannst gaman að sjá að það er þó nokkuð mikið um ung börn (6-9 mánaða). Ein (USA) sem sótti um barn á aldrinum 6-24 mánaða fékk 6 mánaða barn. Þannig að það er ekkert hægt að spá fyrir um aldur barnsins sem er kannski bara eins gott eða hvað?

Fólk er áfram að velta sér upp úr því hvers vegna hefur verið að hægjast svona mikið á upplýsingastreyminu en skoðanirnar eru eins margar og fólkið sem segir þær. Við erum búin að velta okkur svo mikið upp úr því að ég er ekkert að spá í það núna. RQ er með heilmikið af spekúlasjónum varðandi stærð mánaðanna og mér sýnist að nóvember sé mun stærri mánuður en október sem er held ég ágætt fyrir okkur sem erum um miðjan mánuðinn. Held ég sko. Sýnist líka að júlí og ágúst séu ekkert rosa stórir sem er auðvitað gott fyrir ágústhópinn okkar ;) Hinsvegar virðist mars á næsta mánuði ætla að verða HUGES. Veit einhver hvenær næsti hópur frá Íslandi er með LID? (fyrsti hópur ársins 2006 væntanlega).

Í næstu viku fer ábyggilega að myndast slúður um það hversu langt inn í júní við náum næst eða hvort það verður allur mánuðurinn.