Meinvill og slúðrið

Slúður af netinu um tímasetningar sem upplýsingar berast frá Kína Okkar LID er 14 nóvember 2005

05 maí 2006

Hvað er Guānxi?

Þar sem það er ekkert að frétta í dag ákvað ég að breyta bara til og skrifa um eitthvað allt annað, eða smábrot af kínverskri menningu. Menning þeirra er jú allt öðru vísi en okkar, svo ólík að oft verða árekstrar þegar fólk veit ekki betur. Eitt orð sem er mikið notað er Guānxi. Þetta er mikið notað í viðskiptum og þýðir "samband". Í kínverskum viðskiptaheimi getur þetta einnig þýtt margskonar samband og tengingar milli ólíkra aðila í viðskiptum (sambærilegt við network). Kannski er hægt að segja að þetta líkist mest "ef þú klórar mér á bakinu þá klóra ég þér". Sem sagt það er mikilvægt að gera mönnum greiða reglulega og þá ganga hlutirnir greiðlega fyrir sig og greiðarnir koma á móti. Þetta hefur stundum orðið Evrópubúum erfitt að skilja og þá eiga þeir oft erfitt uppdráttar í Kína. Það er þarna sem gjafirnar koma inn. Þær ýta undir gott Guānxi sem er mikilvægt á öllum stigum. Eitt þarf að vera á hreinu, þetta er ekki það sem við vesturlandabúar köllum mútur, þetta er af allt öðrum toga. Ef einhver á inni gott Guānxi og lendir í einhverri klemmu þá fer networkið af stað og hjálpar þessum aðila. Ef þessi sami aðili hefði hins vegar átt slæmt Guānxi þá fengi hann að sitja í súpunni og bjarga sér sjálfur.

Varðandi ættleiðingarmálin þá er það minn skilningur að það sé ekki endilega stærð ættleiðingarumboðsins eða fjöldi barna sem ræður hvort viðkomandi eiga gott Guānxi. Nei það fer alveg eftir því hvernig samband hefur myndast milli Kínverja og þeirra sem þeir eiga í viðskiptum við. Þeir kjósa að eiga í persónulegum viðskiptum og vilja þekkja þann sem þeir eiga við. Ég reikna með að það sé partur af heimsókninni um daginn, að koma á persónulegum samböndum.

Guānxi þarf þó ekki endilega að vera tengt peningum. Þú getur átt gott Guānxi hjá Kínverja ef þú umgengst hann af virðingu meðan aðrir sýna honum óvirðingu. Einnig getur gott Guānxi skapast af því að standa saman þegar tímarnir harðna. Að gefast ekki upp hver á öðrum. Þannig getur Guānxi tekið á sig margar myndir og er alls ekki litið á það sem einhverskonar mútufyrirbæri. Þetta er viðurkennt í kínverskri menningu og menn leggja oft nokkuð á sig til að tryggja sér gott Guānxi.
heimild