Meinvill og slúðrið

Slúður af netinu um tímasetningar sem upplýsingar berast frá Kína Okkar LID er 14 nóvember 2005

18 apríl 2006

Hvað skal segja

Ja nú er það ljótt! Stóru umboðin í Ameríkunni eru farin að biðja fólk sem er að bíða, um að búa sig undir að biðin sé að lengjast og það sé nauðsynlegt að búa sig undir að framlengja formið I171H. Þetta form er örugglega eitthvað svipað og forsamþykkið okkar. Þetta hefur 17 mánaða gildistíma og þeir eru m.a að biðja fólk að skrifa þingmönnum sínum og biðja um að þetta form verði framlengt í 24 mánuði eins og það sé í öðrum löndum. Okkar forsamþykki er einmitt með gildistíma í 24 mánuði. Þetta eru ekki uppörvandi fréttir nema síður sé. Þetta eru eiginlega ömurlegar fréttir ef maður spáir aðeins í því. Ameríka er búið að hitta sendinefndina frá Kína og þetta kemur í framhaldi af þeim fundum. Spurning hvaða fréttir við fáum eftir fund ÍÆ? Eða hvort við fáum einhverjar fréttir.

Annað slúður er um upplýsingagjöf til júnífólksins. Slúðrið hefur verið að það muni taka þrjá mánuði að fara yfir þann mánuð (ohmægod) og það slúður hefur ekki farið neitt minnkandi. Þannig var eitt af stóru umboðunum (ég veit ekki hvaða) að senda út fréttabréf og segja, að ef næstu upplýsingar nái yfir 31 maí til 8 júní þá muni taka þrjá mánuði að klára júní... ef hinsvegar upplýsingar nái til 15 júní þá muni bara taka tvo mánuði að klára júní. Úff ég veit nú ekki hvort þetta er til að róa eða æsa mann.

Það er líka verið að velta fyrir sér átæðunum fyrir þessu öllu. Það er að segja af hverju tíminn hefur verið að lengjast. Samkvæmt þessum fundum er ástæðuna að finna í batnandi efnahagslífi sem verði til þess að innlendar ættleiðingar hafa aukist þannig að það séu færri börn sem fara til erlendra ættleiðinga. Persónulega, og nú tala ég algerlega ábyrgðalaust og þetta er algerlega mín eigin skoðun. Ég held að þetta sé bullsjitt!!! Það væri æðislegt ef þetta væri satt því auðvitað er best fyrir börn, hvaðan sem er úr heiminum, að vera áfram í sínu eigin landi og allt það. Mér finnst þetta bara ekki stemma. Ég er náttúrulega með þá náttúru að ég er skeptískari en fjandinn ef ég hef ekki staðreyndir fyrir framan mig og það eru engar staðreyndir sem ég sé passa við þetta. Hinsvegar er eitt mál sem er soldið stórt eiginlega er það risastórt sem mér finnst passa betur: Árið 2008 verða Ólympíuleikarnir í Kína. Það er strax byrjað á því að fjalla um þá og fréttaskýringaþættir í USA eru byrjaðir að fjalla um ýmsa atburði í Kína og eins og fréttamönnum er tamt byrja þeir á því að fjalla um það sem þeir finnst vera neikvætt og sem komi við mann í leiðinni. Núna eru þeir á fullu að sýna þætti sem sýna hversu mörg börn eru ættleidd frá Kína til erlendra landa á hverju ári og að sú tala fari hækkandi. Þeir leggja líka áherslu á að strákar séu að verða yfirgnæfandi í kínversku samfélagi og hvað þeir ætli að gera í framtíðinni. Ég held að þetta sé eitthvað sem Kína fíli ALLS EKKI. Þeir vilja ekki láta alheim velta sér upp úr svona hlutum og þess vegna eru þeir hægt og sígandi að lengja tímann þannig að fólk snúi sér annað. og þegar 2008 skellur á geta þeir sagt... "jú þetta voru svona mörg börn, en við höfum þetta allt undir kontrol í dag og sem betur fer hefur erlendum ættleiðingum fækkað og börn eru ættleidd innanlands".

Auðvitað veit ég ekkert um þetta, þetta er bara mín samsæriskenning. Ég held hinsvegar að batnandi efnahagslíf og allt það sé aðeins lengur að hafa áhrif í svona stóru landi eins og Kína þannig að bein áhrif komi ekki svona fljótt fram. Held líka að ef þetta væri svona.. afhverju eru þeir þá ekki búnir að setja upp tilkynningu á heimasíðunni sinni sem útskýrir þetta mál? Skýringin þarf ekki að vera flókin, gæti verið í fréttastíl t.d. "sökum batnandi efnahags og ýmissa annarra þátta hefur innlendum ættleiðingum farið fjölgandi og það hefur bein áhrif á erlendar ættleiðingar sem þar af leiðandi fækkar" Voila. Málið er leyst! Nei málin eru aldrei svona einföld (stuna). Meðan bíðum við milli vonar og ótta. Spáið í því hvað lífið væri auðveldara ef þeir mundu núna setja á heimasíðuna hjá sér: "reiknað er með því að biðin fari upp í XX mánuði". Þá mundi maður hætta að fylgjast með heimasíðunni þeirra og byrja að gera eitthvað annað og þegar færi að koma nær þessum atburði færi maður aftur í gírinn. Eins og er, eru allir að fylgjast með og hver og einn með sína eigin samsæriskenningu um það hvað sé á seyði. En mín tengist sem sagt Ólympíuleikunum, eflaust af því ég er antisportisti haha