Meinvill og slúðrið

Slúður af netinu um tímasetningar sem upplýsingar berast frá Kína Okkar LID er 14 nóvember 2005

31 janúar 2007

Og við bíðum

Þetta gæti komið í dag eða á morgun. Evrópa tilkynnti fyrir allar aldir að ekkert væri að frétta en það er reiknað með að Evrópulöndin viti á undan USA hvenær upplýsingarnar koma þar sem USA er 5-6 tímum á eftir. Það var þannig síðast.

30 janúar 2007

Glænýtt

... slúður. það er komið R3 á að það sé búið að senda upplýsingar og R3 að þær nái til og með 14. okt. Ef þetta reynist satt er þetta miklu meira en þeir hafa verið að senda að undanförnu... og það er svo löngu kominn tími á stóran, stóran bunka af upplýsingum. R3 er slúður sem hægt er að taka mark á en er samt ekki það öruggt að það þýði "að svona sé þetta". Þannig að R3 er svona la,la slúður en samt ekki slæmt :)

Annað sem ég hef heyrt er að ég hef séð á alla vega tveimur stöðum fólk með NOV LID sem CCAA er nýbúið að hafa samband við og vill fá frekari upplýsingar. Held það geti verið óhætt að túlka það þannig að skýrslurnar okkar eru að færast nær... eða hvað???? Það er alla vega byrjað að dusta af þeim rykið held ég sé óhætt að segja!

Er ekki kominn tími á næstu upplýsingar plís?

Mér finnst það. Það er kominn 30 jan og löngu kominn tími. Og það er nákvæmlega ekkert slúður í gangi. En var það ekki þannig í síðasta mánuði líka? Mig minnir það. Allt í einu birtust upplýsingar öllum að óvörum.

Nú er komið nákvæmlega eitt ár síðan hópur 16 hittist í fyrsta skipti til að undirbúa Kínaförin sem átti að fara í síðasta lagi í september á síðasta ári. Við erum náttúrulega alltaf að færast nær og í tilefni af því hittist hópurinn um helgina og æfði sig á því að prjóna mat. Það kom í ljós að við munum ekki svelta úti því öll getum við einhvern veginn notað prjónana, kannski ekki mjög glæsilega en maturinn endar þar sem hann á að enda.

24 janúar 2007

Að halda ró sinni

Oh... anda inn og anda út.... RQ segist nær pottþétt að 11 okt verði með í næstu upplýsingum. Samkvæmt hennar upplýsingum má búast við að lokadagurinn verði á bilinu 13-17 okt.. anda inn og út... Það væri svo frábært að það er engu lagi líkt... Hvernig verð ég þegar þeir fara að nálgast nóvember ef ég er hæber yfir því hversu langt þeir komast inn í oktober??

Koma svo...

Ekki mikið nýtt

En það er samt búið að ræða nokkuð spánna sem ég setti þann 17 janúar. Sú sem póstaði það fullyrðir að umboðið sitt hafi síðustu 12 mánuðina verið með nokkuð rétta spá. Þegar það hafi ekki staðist hjá þeim hafi það alltaf verið með spá sem var að upplýsingar næðu heldur stytra en þær komu svo til með að gera.Aldrei spáð að upplýsingar nái lengra fram í tímann en þær hafa svo komið til með að ná. Mér fannst smá vonarglæta í þessu. Hún var beðin að skoða sérstaklega mánuðina hræðilegu í fyrra (maí-júní) þegar aðeins var birtur 5 daga skammtur af upplýsingum og hún sagði að meira segja þá hefðu þeir verið frekar nákvæmir því þeir hefðu birt 2 spár á þeim tíma: Ef X þá þetta en annars ef X þá hitt.. Hmm veit ekki hvort þessi póstur er nokkuð skiljanlegur ;)

23 janúar 2007

Blessaður rússíbaninn

Já hann er að fara af stað loksins. Æi ég verð að segja eins og er að ég hef saknað hans soldið. Það er betra að fá rússíbanafréttir heldur en engar, eða það finnst mér alla vega. Maður er þó alla vega á lífi meðan maður finnur fyrir rússíbanum. Nú eru nokkur umboð sem segja að líklega verði næstu upplýsingar ekki eins slæmar og margir hafa talið, þeas muni ná lengra inn í október. Eitt umboð sem aldrei hefur heyrst frá fyrr segir að búið sé að para fyrir þennan mánuð og síðan eru það misvísandi upplýsingar varðandi hvenær upplýsingar geti komið. Allt frá síðstu viku í janúar til fyrstu viku í feb. En það er nú bara eins og í hverjum mánuði. Það er alltaf svona.. Hins vegar EF upplýsingar koma ekki fyrr en í fyrstu viku í feb þá er held ég borin von um að það komi upplýsingar fyrr en um miðjan mars næst. Nýja árið er í miðjum febrúar og þá er viku til tíu daga frí þannig að sá tími dettur út. Æi suma daga er bara ekki hægt að telja neitt en þetta er samt að styttast. Ég verð samt að viðurkenna að mitt í þessum ömurlegheitum yfir þessari lengdu bið þá er ógeðslega fyndið að líklega verðum við í hópi 16 í Kína akkúrat á þeim tíma sem okkur kveið sem mest fyrir að fara... bara akkúrat ári seinna. það þýðir sko ekki að deila við dómarann og örlögin thihihi

20 janúar 2007

Sluðrið

Það er aðeins að byrja slúðrið fyrir næsta skammt af upplýsingum og eins og oft hefur gerst fram að þessu eru fyrstu spár ekki góðar. Fæstir spá því að upplýsingar nái nema til 8-10 okt sem er pínulítið ef satt er. Það eru jú stór dagur í september en það eru mjög litlir dagar fyrst í okt og sumir segja meira segja að fólk sem segist vera með LID frá 1-8 okt geti ekki verið með LID þá þar sem skrifstofan hafi verið lokuð fyrstu vikuna í okt vegna oktoberhátíðarinnar. Ég veit ekkert um það. Vona bara að þeir komist alla vega til 15 okt því þá er bara mánuður sem eftir á að fara yfir áður en kemur að okkur.

17 janúar 2007

Nytt sluður

Úff ég veit ekki alveg hvort ég á að þora að setja þetta á blað... en á maður ekki að leyfa sér að halda i vonina? skrifstofan sem birtir þessa spá er sögð vera litið fyrir yfirlysingar og alls ekki vera til i langtimaspár en setur þetta samt fram. og byggir þetta a því að það séu að meðaltali 11 vinnudagar sem þeir segja að kína hafi afgreitt síðustu 6 mánuðina:
janúar 28.sept-19.okt
Feb. 20.okt til 03.nóv
Mars 4,nóv til 20.nóv
April 21 nóv til 5.des
Maí 6.des til 20.des

Þetta er jú bara ein skrifstofa sem segir þetta en þetta er samt skemmtilegra en hryllingurinn sem ég var búin að telja saman.

15 janúar 2007

Flýtimeðferðir og fleiri merkilegt

Já best að byrja á flýtimeðferðunum. Fólk sem fær flýtimeðferðir í Kína er annað hvort búsett þar eða annað umsækjenda er af kínverskum uppruna. Held ég fari með alveg rétt að engir aðrir fá þar flýtimeðferðir (af erlendum umsækjendum).

Það er lítið um að vera á þessum tíma mánaðar og þess vegna dundaði ég mér um helgina að telja þau LID sem eru í nýjustu könnun hjá RQ og þau eru ÆÐI mörg. Sögusagnir hafa verið síðan í maí að það hafi verið 2000 umsóknir í október 2005 og hátt í jafnmikið í nóvember. Myndin sem er hér að neðan er frá því síðasta laugardag, eflaust hafa einhver bæst við síðan þá. Málið er að þegar þessar kannanir eru skoðaðar er verið að afgreiða um 200 LID plús/mínus 10. Nema síðast þá voru afgreiddar um 130 samkvæmt þessari talningu. Ég setti því talninguna þannig upp að fyrst gef ég mér að það verði alltaf 200 LID, næsta talning er ef það eru alltaf 150 og að síðastu ef það væru alltaf 100 en þá varð ég þunglynd og hætti (eða þannig). Líklegast er auðvitað að næstu upplýsingar verði einhver blanda af þessu, einhverstaðar á bilinu 130-200.
ps.. ég ætla til Svíþjóðar í nokkra daga til að jafna mig á yfirgengilegri vinnu undanfarna daga (not). Ef eitthvað merkilegt gerist meðan ég er þar þá skelli ég því inn...

14 janúar 2007

14 mánaða í dag

Þá er 14 mánaða LID afmæli í dag. Ég er búin að vera telja LID og telja meira til að sjá hvort það sé einhver vegur að við séum að fara núna næstu daga en framtíðin er svört og það er alveg sama hvernig ég tel það er alla vega 4 mánaða bið í viðbót. Líklegast 5.

13 janúar 2007

Uppsagnir og barneignarleyfi

Það er ljóst að kerfið stendur ekki með foreldrum ættleiddra barna að neinu leyti. Og þá er ég að tala um upphaf eða "fæðingu" barna okkar. Það hefur t.d. tekið mörg ár að fá ríkið til að samþykkja styrki til foreldra þrátt fyrir mikinn kostnað á meðan foreldrar barna sem fæðast á "eðlilegan" hátt greiða ekkert fyrir meðgönguskoðanir og fæðingu barna sinna. En það er búið að leiðrétta þetta.

Það er hinsvegar EKKI búið að leiðrétta það að lagaleg vernd sem segir að ekki megi segja upp konum á leið í barneignarfrí nær EKKI yfir konur í bið eftir ættleiðingu og konur í glasafrjóvgunarferlinu. Þar mega fyrirtæki hegða sér eins og þau vilja, lagaleg vernd eins og verkalýðsfélögin kalla það er engin. Sumar konur eru heppnar og vinna hjá fyrirtækjum sem trúa siðferðisskyldu sinni og láta jafnt yfir þessa hópa ganga. Önnur fyrirtæki eru eins og fyrirtækið sem ég hef unnið fyrir síðustu 8 ár og láta sig það engu skipta þó kona sé komin síðustu skrefin í sínu barneignarferli. Í mínu tilfelli hafa yfirmenn og samstarfsmenn fylgst með ferlinu frá upphafi og fagnað og syrgt með þegar við átti. Það virðist hins vegar ekki ná djúpt inn þegar atburðarásin er skoðuð. Og uppsagnarástæða? Samstarf við nýjan yfirmann, starfsþróunarstjóra, gengur ekki. Gaman að benda á það að hún er kona og vissi af áætluðu leyfi frá því hún hóf störf. Og hún er kona sem hefur eignast tvö börn á "eðlilegan" máta þannig að hún hefur væntanlega farið í sitt barneignarfrí þegar það kom upp!

10 janúar 2007

Langir mánuðir

það er ekki nóg með að janúar mánuður verði langur mánuður. Ég hef trú á því að það fari nokkrir langir mánuðir í hönd hjá mér. Fyrirtækið sem ég vann hjá sagði mér fyrirvararlaust upp störfum í fyrradag. Mér var jafnframt tjáð að ég þyrfti ekki að hafa miklar áhyggjur "því atvinnuástandið er það gott að þú hefur nógan tíma til að finna góða vinnu". Það er eflaust rétt en hver ræður ófríska konu í vinnu? Ég er ekki ófrísk en ég er á leið í barneignarfrí næsta sumar þannig að ég á ekki von á því að það verði slegist um mig í vinnu á þeim markaði sem ég hef unnið við. Réttindi kvenna sem eru að fara að ættleiða eru engin. Það er rétt rúmt ráð síðan annarri konu í þessari stöðu var einnig samt upp störfum og fór hún í barneignarfrí um þremur mánuðum síðar. Hefði mér verið sagt upp ef ég hefði verið sjáanlega ófrísk, komin um 5 mánuði á leið?

Langur mánuður

Það er langur mánuður framundan. Kínverska nýja árið er 18. febrúar að þessu sinni og mörg opinber fyrirtæki í Kína taka sér vikufrí í kringum þanna tíma. CCAA hefur yfirleitt verið lokað á þessum tíma. Þeir hafa yfirleitt (undanfarin ár) sent frá sér upplýsingar áður en þeir fara í frí þannig að spurningin er hvort þeir sendi upplýsingar í lok janúar og svo aftur fyrir lokun eða hvort það komi bara einar upplýsingar einhvern tíma á þessum tíma. Þetta verður löng bið!

09 janúar 2007

Fjöldapóstur - mótmæli

Ég er búin að vera að fylgjast með nýjustu uppákomunni í USA. CNN sýndi þátt um ættleiðingar 5 janúar og allt varð vitlaust í ættleiðingarheiminum vestra. Í þættinum var gefið í skyn að fólk sem vildi ættleiða börn frá Kína væru upp til hópa rasistar sem vildu ekki ættleiða innanlands í Ameríku og alls ekki afrísk-amerísk börn. Ein af ástæðunum væri sú að þetta fólk tryði því að kínversk börn væru gáfaðari en önnur. Ættleiðingarheimurinn ameríski tók höndum saman og sendi mótmælabréf til CNN, bæði til stjórnandans og yfirmanna hennar. Og ekki nóg með það heldur sendu þau líka bréf á sponsora þáttarins og spurðu hvort það væri virkilega ætlun þeirra að styðja svona þætti. Í gær birti CNN annan þátt með sömu flytjendum þar sem reynt var að afsaka þennan þátt með því að tala við aðila sem vissu eitthvað um erlendar ættleiðingar og lesið var upp úr bréfum sem fólk hafði sent þáttunum. Það er mál manna að afsaökunarbeiðnin hafi ekki tekist mjög vel og að ef umfjöllun CNN sé svona léleg af efni sem fólk þekkir vel hvernig umfjöllunin sé þá varðandi önnur efni sem fólk þekkir ekki? Þeir virðast þó hafa brugðist snögglega við og mér finnst mjög athyglisvert að fólk skuli geta haft svona mikil áhrif á þáttastjórnendur.

04 janúar 2007


Loksins búið að uppfæra síðuna.Þetta hefði getað verið betra en það hefði líka getað verið verra. Ég er sem sagt í bjartsýnisskapi í dag;)

03 janúar 2007

29 virðist ekki vera með

Það er ekki komin staðfesting en það eru farnar að birtast yfirlýsingar frá fólki á vefsíðum um að 29 hafi ekki náð inn. En það er annaðhvort 27 eða 28. Þannig að það virðist vera sem seinni útreikningurinn sé réttari fyrir okkur.

Enn ekki komið á hreint

Það er ekki enn komin lokadagsetning. Það er búið að staðfesta að 27. er með en ekki heyrst frá neinum eftir það. Það komu fréttir á APC vefinn í nótt um að 29 væri inni en það er óstaðfest ennþá. CCAA er ekki búið að breyta vefnum hjá sér. Kanarnir eru að fara yfir um, mér sýnist sem annar hver maður sé með LID 29 sept. Enginn smá fjöldi. Oh hvað ég vona að þeir nái að fara yfir 29 því það er aðeins minna að fara yfir áður en komið er að okkur...

02 janúar 2007

Ekki komin lokadagsetning

Enn er ekki komin nein lokadagsetning. Þannig að enn er hægt að vona að þeir hafi náð að koma 29 sept með... Virðist vera sem upplýsingar hafa bara borist til Evrópu ennþá. En það er samt búið að fréttast af einum tvíburum fæddum sumarið 2005 sem fara til Frakklands ;) Tvær stúlkur. Þetta er sem sagt allt að koma...

Upplýsingar eru komnar til Evrópu

Upplýsingar virðast vera að berast til Evrópu í dag, en ekkert heyrst frá USA enda held ég að þar sé almennur frídagur (sorgar) vegna fráfalls FORD fyrrverandi forseta. Að minnsta kosti eitt evrópskt umboð er búið að staðfesta að upplýsingar nái til og með 27 en ekki er vitað hvort þeir eru með einhver LID 28-30.

Útreikningar2 (frh af fyrra pósti)

Sorry en blogger er með stæla þegar ég blogga að heiman og leyfir bara litla pósta og þess vegna verður að skipta þessu í fleiri pósta.

Já sem sagt uþb 7 mán. bið fyrir 29.sept 2005. Ef LIDið er 6. jún 2006 þá eru 250 dagar frá LID og það margf. með 2,3 eru 575 dagar eða um 19-20 mánuðir í bið í viðbót. Ef LIDdið er 29.des 2006 þá eru það 456 dagar sinnum 2,3 sem gera 1.049 dagar eða 34-35 mánuðir til upplýsinga. Þetta hljómar ekki vel og alls ekki víst að þetta verði svona slæmt, en eins og staðan er í dag þá lítur þetta svona út.

Hinsvegar þá er verið að breyta reglunum en það er ekki fyrr en 1 maí 2007 og það er langt þangað til þeir byrja að vinna í þeim mánuðum því fyrst þarf að vinna upp alla sem eru á undan sem eru eru slatti margir mánuðir. Öllum líkindum verður það um rúmt ár sem þarf að vinna upp áður en þeir geta farið að vinna eftir nýju reglunum sem þýðir að þeir fara ekki að vinna eftir þeim fyrr en um sumar 2008.

Útreikningar

Í gær setti RQ upp reiknilíkan til að reikna út biðtímann út frá stöðunni í dag. Þarna kemur t.d. fram að 3. okt. 2005 var búið að afgreiða umsóknir til og með 15.mars 2005. Í dag 2 jan. 2007 um 15 mánuðum seinna er búið að afgr. til og með 8.sept 2005. Eða samtals 5,8 mánuði á 15 mánuðum. Þetta er raunveruleikinn sem blasir við okkur í dag. Alveg sama þó við segjum "þetta fer að lagast" og "næsti mánuður er mánuðurinn sem allt snýst við".Þetta er veruleikinn. Ef þeir ná að afgreiða 29.sept. (og það er enn þá EF) á morgun eða hinn þá er alls búið að afgreiða 6 mánuði og 14 daga á 15 mánuðum eða sem samsvarar 198 dögum. 15 mánuðir eru 457 dagar og ef við deilum 198 dögunum í það þá fáum við út 2,3. Sem er þá meðaltalið sem tekur að ná að ljúka einum mánuði af umsóknum.
Ef við horfum til baka þá hefur það stundum tekið lengri tíma og stundum styttri sem gerir þetta að meðaltali 2,3 mánuði. Og hvað getur þetta sagt okkur? Við getum skoðað hversu langur tími er á milli LID dagsetningar sem við höfum og 29. sept (þá göngum við út frá því að 29. sé með sem enn er ekki víst) og margfaldað mánuðina með 2,3. Þar sem það er minna en tveir mánuðir frá 29 sept til 14 nóv þá er ekki víst að þetta virki fyrir hóp 16. Við þurfum að líta frekar á hvernig LID raðast á einstaka daga til að sjá hvar við gætum lent. RQ notar 29.des 2005 sem dæmi og best ég geri það líka því hópur 17 er nálægt þeim degi. Þetta eru 3 mánuðir og margfaldað með 2,3 er það nálægt 7 mánaða bið sem er ábyggilega ekkert fjarri lagi.

01 janúar 2007

Nýtt slúður

Fyrsta slúðrið á þessu ári og það er ekkert spes. Það segir að líklega verði 26.sept með í næstu upplýsingum en enn er ekki vitað um 29. sept. Ef þetta er satt er það HRÆÐILEGA LÍTIÐ. Ef við skoðum myndina sem ég setti upp 16. des þá er það minna heldur en í útkomu 2 því þar vonaðist ég til að þeir kláruðu alla vega 28.sept. Þetta væri þá á milli 120-132 LID sem er MJÖG lítið.


Ef þetta er rétt lítur ekki vel út með framhaldið. En annars er rétt að bíða með svartsýnis rausið þangað til við fáum staðfestinguna frá þeim. Er samt að missa alla trú á þetta apparat þessa dagana. Þeir ku vera í helgarfríi í dag og á morgun. Spurning hvort þeir sendu frá sér upplýsingar í gær áður en þeir fóru í frí eða hvort þeir gera það ekki fyrr en á miðvikudag þegar þeir koma til baka.