Meinvill og slúðrið

Slúður af netinu um tímasetningar sem upplýsingar berast frá Kína Okkar LID er 14 nóvember 2005

10 september 2007

Nokkrar myndir








08 september 2007

Komin aftur heim til Beijing....

Nú er fyrsta flugferðin yfirstaðin og ég held hún hafi gengið nokkuð vel hjá flestum ef ekki öllum. Það var eitthvað grátið en samt ekkert meira en þó þessar hetjur hefðu þekkt okkur alla ævi og treyst okkur fullkomlega.

Hinsvegar brugðust þær misjafnlega vel við að vera komnar á annað ótel með mun stærra hlauparými. Sumar hlupu og hlupu og gátu ekki hætt meðan aðrar neituðu að fara inn og vildu bara láta labba með sig einhversstaðar úti.

Við erum öll sammála um að stelpurnar okkar standa sig eins og hetjur. Það er búið að rífa þær úr öllu sem þær þekkja en samt eru flestar þeirra hlæjandi og skríkjandi eins og ekkert hafi í skorist. Það er líka athyglisvert (eða okkur finnst það) að þær virðast þekkja ótrúlegustu hluti. Það ehfur áður komið fram að þær eru alvanir nammi og snakk grísir en þær komu allar með stóra skammta af slíku með sér. Þær virðast líka þekkja flestan mat, KFC er td ekkert ókunnuglegur og þegar ein komst í pepsi af tilviljun (ætla ekki að segja hver þeirra) þá var greinlegt að hún gjörþekkti cola bragð. Okkar bíður því það hlutverk að venja þær af óhollustu haha sem er soldið fyndið ef maður spáir í því.

Á morgun förum við að skoða himnahofið og ætlum að þakka himinguðunum fyrir það sem þeim ber. Villi kallinn ætlar að leyfa okkur að sofa út og við förum ekki fyrr en klukkan 14 sem er svo vel þegið að það er ótrúlegt. Eftir það ætlum við síðan að fá okkur Peking önd því hvað er meira við hæfi hér í Peking?

Og ein stóra systirin er komin með hlaupabólu. Daddaradda..verða þá ekki allir með svoleiðis eftir viku tíma eða svo? EN þá verðum við vonandi komin heim.

Í gær fórum við í dýragarð og byrjuðum á að fara á sýningu þar sem dýrir voru látin leika ýmsar kúnstir. Íslendingarnir stóðu sumir upp og fóru út á fyrsta atriðinu en flestir þruakðu þó út sýninguna. Það er augljóst að Kínverjar og Íslendingar hafa ekki sömu hugmyndir um góða meðferð á dýrym Oj bara. Ekki gaman að sjá tuskulega útlítandi ljón og tígrisdýr hoppa um og gera einhverjar kúnstir sem eru þeim ekki eiginlegar og ef þau voru ekki nógu fljót þá voru þau lamin með svipu eða priki. JAKK.

En þarna var líkar fallegur garður með Bonsai trjám og æðislegt veður þannig að við dúlluðum okkur bara um og áttum næs dag.

06 september 2007

Gangamyndir

Hér koma nokkrar gangamyndir en við erum alltaf á ganginum. Sem betur fer er hægt að labba hér einhvern hring þannig að við röltum hring eftir hring. Stóru stelpurnar reyna að finna sér eitthvað til dundurs og finna upp á ýmsu:

Hér eru allar stelpurnar nema Anna Zhu: Katha Aþena, Laufey, Telma Rós og Jóna María


Snjólaug með ungana sína. Einar er svo spennandi að Ingibjörg fæst ekki til að snúa sér við.


En svo sest Ingibjörg í kerruna og þá er í lagi að snúa sér við ;)

Jóna María með fiðluna góðu



Laufey tekur sig líka vel út


Og Katha líka ;)

05 september 2007

Sætar stelpur

Hér eru myndir af nokkrum af sætu stelpunum okkar. Það vantar bara eina, Rósu Lind. Hinar eru hér:
Anna Fríða
Ástrós Halla
Díana Rós

Ingibjörg

Kristín

Natalía Yun
Sheng

Á leið til Wuhan

Hér koma nokkrar síðbúnar myndir frá því við lögðum að stað til Wuhan. Þær skíra sig að mestu sjálfar held ég. Allir voða spenntir og merkingarnar eru þegar hópurinn átti að merkja nýju kerrurnar með nafni:




03 september 2007

Erfiður gleðidagur

Dagurinn í dag rann upp með mígandi rigningu að íslenskum hætti en þó með öllu meiri raka en fylgir þeirri íslensku. Og það er búið að rigna í allan dag bæði inni og úti.

Þetta var heilmikill gleðidagur hjá okkur 30menningunum en litlu dömurnar voru vægast sagt skelfingu lostnar. Það er mikið búið að gráta í allan dag og enn heyrist grátur á stöku stað ef maður röltir eftir ganginum. Auðvitað er ekki bara grátur, inn á milli hafa þær leikið sér og almennt séð horft á heiminn undrunaraugum. Held það sé rétt hjá mér að þær hafi allar grátið nema ein, sú er hörkugrallaraspói og er búin að vera á hlaupum á eftir bolta um alla ganga.

Við foreldrarnir erum búin að vera á þessum típísku foreldragangafundum þar sem við stöndum eða sitjum með börnin og þau sem treysta sér til þess skoppa og leika sér saman. Það eru þó ekki allar sem eru svo burðugar.

Ég er ekki með neinar myndir, frá því í dag því það fór allt í upplausn þegar átti að taka myndirnar því gráturinn og lætin voru svo mikil að við vissum ekki fyrr en við vorum öll komin aftur út í rútu með fullt af grátandi börnum. 'UFF, erfitt en nú eru flestar sofnaðar og bara spurning hvort þær vakni fyrir allar aldir til að vekja okkur stressforeldrana.

Set hér inn linkinn á kynningarsíðuna sem er á hópasíðunni sem upphaflega átti að vera. Þessi síða var tilbúin og þess vegna get ég hent henni út þó ekkert frontpage sé til staðar :) Þessarmyndir verða að duga þar til á morgun en þá er stefnan að taka nýjar myndir af þeim öllum. Dæturnar kynning

02 september 2007

Wuhan stress

Jæja já, við erum komin til Wuhan. Ég veit það vantar einn dag inn í færsluskrifin en það verður að bíða eftir aðeins meiri tíma. Við erum búin að vera að þvælast í allan dag. Flug frá Bejing til Wuhan tekur samt bara rétt um 2 tíma en það er bara svona með ferðalög einhvern veginn ná þau að teygjast yfir heilu dagana.

Hér eru allir að fara yfir um af stressi og við getum ekki talað um neitt nema pela, túttur, mjólk og...ó hvað fleira þarf svona lítið ókunnugt barn? Já já ok, við finnum út úr því snuð og teppi.... nei ekki teppi það er svo ógeðslega heitt... en hei þær hafa eflaust ekki vanist loftkælingu, OK tökum teppi með fyrir rútuna. Hvað með snuð? Nota þær svoleiðis? Já tökum þau með til öryggis og Cheerios, og matarkex og sitthvað fleira. Það endar með því að við getum eflaust skilið bakpokana eftir hér á hótelinu og tekið bara með okkur ferðatöskurnar. Þær eru þó alla vega á hjólum!

Fyrsta panikkkastið kom á hótelinu í Beijing þegar einhver rak augun átta kerrur í móttökunni á hótelinu. Allar innpakkaðar og greinilega að bíða eftir eigendum sínu. Fréttirnar fóru um eins og eldur í sinu og allir gerðu sér ferð í mótttökuna til að kíkja inn fyrir borðið meðan fólkið á hótelinu hélt eflaust að við værum að missa glóruna. Hópur af útlendingum ráfandi um gólfið og gjóandi augunum á bak við þau og flissandi eins og smástelpur. Bara gaman að þessu. Næsta panikk kast kom þegar við sáum hótelherbergið í Wuhan og þar biðu okkar uppábúin rimlarúm, nú fer að færast fjör í hópinn. Að vísu var hótelfólkið búið að færa okkur bækling fyrir fyrstu dagana í lífi barnsins hjá okkar og þarna stóðum við eins og hálfvitar með aulaglott á andlitunum og sambandslaus við allt nema þennan litla sæta bækling.

Við fengum nýjan guide hér í Wuhan og hún heitir Christina. Hún hefur reynslu af börnum því hún er mamma sjálf. Villi okkar blessaður er besta skinn og fínn leiðsögumaður en hann veit ekki mikið um börn, það er augljóst en við fyrirgefum honum það því hann er okkar ómissandi hjálparhella. Hinsvegar eigum við eftir að gleypa Christinu með húð og hári því okkur vantar svo upplýsingar. Við erum komin með þær upplýsingar að litlu stelpurnar okkar eru á þessari stundu enn þá hjá fósturfjölskyldum sínum og þær grunar ekki hvað þær eiga í vændum. Þær hafa aldrei fengið neitt annað en heita fæðu og drykki allt sitt stutta líf. Meira segja eplasafinn er hitaður þannig að það er kannski ekki von að við vesalingarnir frá kalda Íslandi séum í stresskasti yfir þessu öllu og sjáum helst fyrir okkur að börnin svelti í hel áður en við komust aftur til baka á hótelið.

En svona að öllu gamni slepptu þá eru núna innan við ellefu tímar þar til við hittumst og nú er best að koma sér í háttinn til að vera vel undir þetta búinn. Hasta la vista baby og við heyrumst aftur á morgun eftir að líf okkar hefur tekið kaflaskipti svo um munar...

Tiaman Square og forboðna borgin


Torg hins himneska friðar er svo stórt að ein milljón manna getur staðið á því í einu og ef allir Íslendingar kæmu saman til að fagna einhverju örlætinu þá rúmuðust þeir fyrir í einu horninu. Þetta fannst Villa guide fyndið. En það er ekki nóg með að þarna komist fyrir fullt af fólki, þarna er nefnilega fullt af fólki. Fólk út um allt, alla vega fólk, lítið og stórt. Minnsta fólkið var flest allt klætt í ægilega fínar buxur með gati á milli fótanna og pempíulegir Íslendingarnir jesúsuðu sig og sveiuðu þegar hið alla helgasta allra karlmanna lafði á milli fóta þeirra fyrir allra sjónum. Æji greyin litlu. Og við máttum auðvitað ekki sjá sölubása án þess að verða eins og æstir kálfar og inn í einum slíkum voru foreldrar að máta einhverja svellfína galla á 6-7 ára börn sín og þar var heldur ekki pempíuhátturinn. Nei þau voru bara svipt klæðum fyrir allra augum og þannig berháttuð áður en þau fóru í nýju fötin. Furðulegt alveg, en sinn er siðurinn í landi hverju.

Á torgi hins himneska friðar finnur maður fyrir sögunni. Upp í hugann kemur óhjákvæmlega myndin af unga námsmanninum fyrir framan skriðdrekann en þegar horft er í kringum sig á torginu þá er þetta ekki það sem kemur fyrst upp í hugann. Nei fyrst er það Maó karlinn og svo er það... oh mæ God það eru sölumennirnir! En nú komust þeir í feitt. Lafmóðir og svitastokknir Íslendingarnir voru nefnilega að ná áttum og voru búnir að taka eftir því að Beijing búar ganga um vopnaðir sólhlífum og blævængjum til að skýla sér fyrir sólinni og nú var sko stokkið í að koma sér upp svona fínerí. Með svitataumana niður andlitið röðuðum við okkur upp og keyptum allt sem hönd á festi sem mögulega gæti létt okkur lífið í hitanum. Og orðspor okkar fór víða og betlarar heyrðu niðinn að þarna væru eyðsluklær og flýttu sér af veikum mætti til að vera með í fjörinu. Jájá, þetta var orðið all skuggalegt á tímabili, fullt af Íslendingum, enn fleiri sölumenn og betlarar að olnboga sig inn á milli. Börnin reyndust sérstaklega viðkvæm fyrir betlurunum og fóru alveg í kerfi og vildu helst gefa allt til var og það voru þeir fljótir að finna. Einn Íslendingur gætti sín ekki alveg nógu vel er hann tók upp vöndul af seðlum og gaf barni sínu einn til að gefa einhverjum betlurum því það sást til hans og það var bara eins og hann gengi um með blikkandi neon skilti..”ég á pening, ég á pening”. Sem betur fer tók nú Villi kallinn í taumana og hóaði okkur inn í forboðnu borgina.

Ótrúlegt hvernig þetta lið hefur lifað. Spurning hvort völdin hafi nokkuð fært þeim hamingju því lífið hlýtur að hafa verið eins og hjá fuglum í búri en stórfenglegt er þetta það er sko ekki hægt að neita því. Það eru þarna einhverjir steinar sem eru 200 tonn og voru fluttir í forboðnu borgina úr norðurhluta landsins. Þeir notuðu vetrartímann þegar landið var ísi lagt, lögðu staura undir og rúllu draslinu áfram. Keisarinn verður jú að fá sín 200 tonn ef það er það sem hann vill. Held þetta væri ótrúlegt jafnvel í dag með öllum okkar tækjum.

Villi var nú orðinn stressaður og hóaði okkur áfram, nóg eftir að gera í dag. Matur á veitingastað vakti mikla kátinu. Og það var ekki maturinn heldur klósett aðstaðan. Einn fór á klósettið og kom þjótandi til baka og skipaði hinum að fara og skoða og allir þutu af stað. Veit ekki alveg hvað þjónarnir héldu er skriðan þusti fram hjá þeim á klósettin og lá þar í kasti. En svona litu vaskarnir út:

Karlaklósettin voru hinsvegar með glugga sem sést bara í gegn öðru megin. Þannig að blessaðir karlarnir gátu staðið með sitt heilaga í höndunum og athafnað sig meðan þeir horfðu yfir matsalinn þar fólk sat að snæðingi. Þeir sem nýttu sér þetta viðurkenndu að þeim hefði þótt þetta pínulítið óþægilegt. Huh við erum að komast að því að við stöndum Kínverjum langt að baki hvað pempíuskapinn varðar...

Eftir matinn fengum við að fara að versla JIBBÍ Loksins. Villi lét keyra okkur á einhverja verslunargötu með fullt af verslunarmiðstöðvum. Ivy tók að sér að lóðsa okkur um það helsta og svo fengum við aðeins að sleppa okkur. ER klukkutími ekki nóg? Ha? Klukkutími? Hvað er að manninum? Á klukkutíma komust við úr rútunni en varla mikið meira. Aumingja Villi, hann stundi og sagði OK tveir tímar, er það ekki nóg? Þið viljið fara á Kung Fu sýningu og við verðum að hafa hraðar hendur. Hmmmm Förum þangað á morgun bara, verslum núna. Og það var niðurstaðan. Við brunuðum af stað því tíminn var naumur og allir ætluðu að kaupa heiminn.

Hann var hinsvegar ekki keyptur í þessari ferð. Jafnvel þó við getum lært margt af Kínverjum varðandi pempíuskap (margt en ekki allt, sumt er aðeins of langt gengið) þá geta þeir lært margt af okkur varðandi sölumennsku í verslunum. Fyrst velur maður hlutinn (oft til tvö stykki, þannig að það eru fyrstu tveir sem fá). Stúlkan skrifar niður á miða og rekur mann til gjaldkera. Gjaldkerinn er yfirleitt einhver aðeins eldri aðili (kona, maður) og situr með svoldinn myndugleikasvið á til þess gerðum bás. Þar bíður maður í röð eftir að fá að borga, með miðann sinn sem er í fjórriti og það þarf að stimpla alla miðana og láta fá kvittun. Í einni búðinni var hver einasti peningur skannaður undir ljósi, mjög áhrifaríkt til að láta fólk fá spennukast hvort allt væri falsað. Þegar þessum prósess var lokið þá er það miðinn í þríriti í þetta sinn og brunað til baka með allt stimplað til sölukonunnar sem í millitíðinni er búin að pakka draslinu inn. Þarna væri hægt að nýta mannskapinn MUN betur en kannski hafa þeir ekkert áhuga fyrir því. Kannski kemur þetta í veg fyrir þjófnaði, eða það verður erfiðara að stela þegar svona kerfi er. Hvað veit ég...

Og varðandi fölsuðu peningana þá er einn kominn í umferð innan hópsins en hann fékkst við forboðnu borgina. Þar var skipt á eðlilegum og fínum seðli í einhverja falsaða druslu. Við létum seðilinn ganga og ákváðum að það væri ekki þess virði að reyna að pranga honum inn á einhvern annan. Bara að reyna að passa sig betur næst. EN sá sem fékk hann var fúll yfir því að láta plata sig svona....

Og nú var komið að kvöldi og fóru sumir í nudd og aðrir plönuðu sundferð. En all flestir svindluðu sér á vestrænan matsölustað (roðn) því þó allir væru sammála um að maturinn væri góður þá var bragðlaukana farið að dreyma um eitthvað kunnuglegt.