Meinvill og slúðrið

Slúður af netinu um tímasetningar sem upplýsingar berast frá Kína Okkar LID er 14 nóvember 2005

02 september 2007

Tiaman Square og forboðna borgin


Torg hins himneska friðar er svo stórt að ein milljón manna getur staðið á því í einu og ef allir Íslendingar kæmu saman til að fagna einhverju örlætinu þá rúmuðust þeir fyrir í einu horninu. Þetta fannst Villa guide fyndið. En það er ekki nóg með að þarna komist fyrir fullt af fólki, þarna er nefnilega fullt af fólki. Fólk út um allt, alla vega fólk, lítið og stórt. Minnsta fólkið var flest allt klætt í ægilega fínar buxur með gati á milli fótanna og pempíulegir Íslendingarnir jesúsuðu sig og sveiuðu þegar hið alla helgasta allra karlmanna lafði á milli fóta þeirra fyrir allra sjónum. Æji greyin litlu. Og við máttum auðvitað ekki sjá sölubása án þess að verða eins og æstir kálfar og inn í einum slíkum voru foreldrar að máta einhverja svellfína galla á 6-7 ára börn sín og þar var heldur ekki pempíuhátturinn. Nei þau voru bara svipt klæðum fyrir allra augum og þannig berháttuð áður en þau fóru í nýju fötin. Furðulegt alveg, en sinn er siðurinn í landi hverju.

Á torgi hins himneska friðar finnur maður fyrir sögunni. Upp í hugann kemur óhjákvæmlega myndin af unga námsmanninum fyrir framan skriðdrekann en þegar horft er í kringum sig á torginu þá er þetta ekki það sem kemur fyrst upp í hugann. Nei fyrst er það Maó karlinn og svo er það... oh mæ God það eru sölumennirnir! En nú komust þeir í feitt. Lafmóðir og svitastokknir Íslendingarnir voru nefnilega að ná áttum og voru búnir að taka eftir því að Beijing búar ganga um vopnaðir sólhlífum og blævængjum til að skýla sér fyrir sólinni og nú var sko stokkið í að koma sér upp svona fínerí. Með svitataumana niður andlitið röðuðum við okkur upp og keyptum allt sem hönd á festi sem mögulega gæti létt okkur lífið í hitanum. Og orðspor okkar fór víða og betlarar heyrðu niðinn að þarna væru eyðsluklær og flýttu sér af veikum mætti til að vera með í fjörinu. Jájá, þetta var orðið all skuggalegt á tímabili, fullt af Íslendingum, enn fleiri sölumenn og betlarar að olnboga sig inn á milli. Börnin reyndust sérstaklega viðkvæm fyrir betlurunum og fóru alveg í kerfi og vildu helst gefa allt til var og það voru þeir fljótir að finna. Einn Íslendingur gætti sín ekki alveg nógu vel er hann tók upp vöndul af seðlum og gaf barni sínu einn til að gefa einhverjum betlurum því það sást til hans og það var bara eins og hann gengi um með blikkandi neon skilti..”ég á pening, ég á pening”. Sem betur fer tók nú Villi kallinn í taumana og hóaði okkur inn í forboðnu borgina.

Ótrúlegt hvernig þetta lið hefur lifað. Spurning hvort völdin hafi nokkuð fært þeim hamingju því lífið hlýtur að hafa verið eins og hjá fuglum í búri en stórfenglegt er þetta það er sko ekki hægt að neita því. Það eru þarna einhverjir steinar sem eru 200 tonn og voru fluttir í forboðnu borgina úr norðurhluta landsins. Þeir notuðu vetrartímann þegar landið var ísi lagt, lögðu staura undir og rúllu draslinu áfram. Keisarinn verður jú að fá sín 200 tonn ef það er það sem hann vill. Held þetta væri ótrúlegt jafnvel í dag með öllum okkar tækjum.

Villi var nú orðinn stressaður og hóaði okkur áfram, nóg eftir að gera í dag. Matur á veitingastað vakti mikla kátinu. Og það var ekki maturinn heldur klósett aðstaðan. Einn fór á klósettið og kom þjótandi til baka og skipaði hinum að fara og skoða og allir þutu af stað. Veit ekki alveg hvað þjónarnir héldu er skriðan þusti fram hjá þeim á klósettin og lá þar í kasti. En svona litu vaskarnir út:

Karlaklósettin voru hinsvegar með glugga sem sést bara í gegn öðru megin. Þannig að blessaðir karlarnir gátu staðið með sitt heilaga í höndunum og athafnað sig meðan þeir horfðu yfir matsalinn þar fólk sat að snæðingi. Þeir sem nýttu sér þetta viðurkenndu að þeim hefði þótt þetta pínulítið óþægilegt. Huh við erum að komast að því að við stöndum Kínverjum langt að baki hvað pempíuskapinn varðar...

Eftir matinn fengum við að fara að versla JIBBÍ Loksins. Villi lét keyra okkur á einhverja verslunargötu með fullt af verslunarmiðstöðvum. Ivy tók að sér að lóðsa okkur um það helsta og svo fengum við aðeins að sleppa okkur. ER klukkutími ekki nóg? Ha? Klukkutími? Hvað er að manninum? Á klukkutíma komust við úr rútunni en varla mikið meira. Aumingja Villi, hann stundi og sagði OK tveir tímar, er það ekki nóg? Þið viljið fara á Kung Fu sýningu og við verðum að hafa hraðar hendur. Hmmmm Förum þangað á morgun bara, verslum núna. Og það var niðurstaðan. Við brunuðum af stað því tíminn var naumur og allir ætluðu að kaupa heiminn.

Hann var hinsvegar ekki keyptur í þessari ferð. Jafnvel þó við getum lært margt af Kínverjum varðandi pempíuskap (margt en ekki allt, sumt er aðeins of langt gengið) þá geta þeir lært margt af okkur varðandi sölumennsku í verslunum. Fyrst velur maður hlutinn (oft til tvö stykki, þannig að það eru fyrstu tveir sem fá). Stúlkan skrifar niður á miða og rekur mann til gjaldkera. Gjaldkerinn er yfirleitt einhver aðeins eldri aðili (kona, maður) og situr með svoldinn myndugleikasvið á til þess gerðum bás. Þar bíður maður í röð eftir að fá að borga, með miðann sinn sem er í fjórriti og það þarf að stimpla alla miðana og láta fá kvittun. Í einni búðinni var hver einasti peningur skannaður undir ljósi, mjög áhrifaríkt til að láta fólk fá spennukast hvort allt væri falsað. Þegar þessum prósess var lokið þá er það miðinn í þríriti í þetta sinn og brunað til baka með allt stimplað til sölukonunnar sem í millitíðinni er búin að pakka draslinu inn. Þarna væri hægt að nýta mannskapinn MUN betur en kannski hafa þeir ekkert áhuga fyrir því. Kannski kemur þetta í veg fyrir þjófnaði, eða það verður erfiðara að stela þegar svona kerfi er. Hvað veit ég...

Og varðandi fölsuðu peningana þá er einn kominn í umferð innan hópsins en hann fékkst við forboðnu borgina. Þar var skipt á eðlilegum og fínum seðli í einhverja falsaða druslu. Við létum seðilinn ganga og ákváðum að það væri ekki þess virði að reyna að pranga honum inn á einhvern annan. Bara að reyna að passa sig betur næst. EN sá sem fékk hann var fúll yfir því að láta plata sig svona....

Og nú var komið að kvöldi og fóru sumir í nudd og aðrir plönuðu sundferð. En all flestir svindluðu sér á vestrænan matsölustað (roðn) því þó allir væru sammála um að maturinn væri góður þá var bragðlaukana farið að dreyma um eitthvað kunnuglegt.