Meinvill og slúðrið

Slúður af netinu um tímasetningar sem upplýsingar berast frá Kína Okkar LID er 14 nóvember 2005

29 ágúst 2007

Kínamúrinn

Þá er komið að stóra deginum sem allir hafa beðið eftir, KÍNAMÚRINN. Núna rennur upp fyrir okkur ljós að við erum loksins komin til Kína og byrjuð að tikka við það sem þarf að gera áður en við fáum stelpukornin okkar í fangið...Kínamúrinn tikk, jade verksmiðjan tikk og Ming vasarnir tikk. Sko þetta er allt að koma!!!!

En svona að þessu frátöldu þá áttum við frábæran dag. Að vísu var hitinn allt að því óbærilegur á köflum en hvaða sannur Íslendingur lætur smá hita nokkuð á sig fá? Menn höfðu það að vísu mis gott og þannig voru sumir yngri meðlimir hópsins að hluta til í kerrum sínum með skyggni til að verja sig fyrir mestu sólinni. William leiðsögumaður sagðist hafa hringt í Blue Skye Corporation til að panta bláan himinn og þeir hlusta greinilega á hann því veðrið var allt annað í dag heldur en í gær þegar mistur lá yfir öllu.

Ferðin hófst rúmlega 9 og voru allir með. Við byrjuðum á því að fara í jadeverksmiðju og sjá hvernig hinir og þessir jade hlutir eru gerðir og það verður að viðurkennast að vinnuaðstaða fólksins er ekki til að hrópa húrra fyrir. Vinnuljósið var ljósapera með dagblaði til að dreifa birtunni og vatnið sem gaurarnir notuðu til að slípa jaded kom í fötum sem héngu fyrir ofan hausana á þeim og þegar það kláraðist trilluðu þeir fram með tóma fötu og náðu í meira til að hella í fötuna. Merkilegt og svona líka flottir hlutir sem þeir búa til.

Okkur var síðan sleppt lausum þarna inni og gátu allir eða allavega flestir fundið eitthvað til að eyða í. William er ekki alveg búinn að fatta hversu hratt Íslendingar í kaupham fara yfir þannig að stoppið varð frekar langt og held ég að margir hafi verið búnir að fara nokkra hringi um svæðið með tilheyrandi afleiðingum. En þegar hér var komið voru allir í besta skapi því hvað er betra en byrja daginn á smá VISA fjöri.

Okkur tókst að finna rútuna okkur aftur og brunuðum nú beint á Kínamúrinn eða eins langt og við gátum keyrt. Við stukkum úr rútunni eins og ótamdir gemlingar og byrjuðum að mynda af miklum móð þrátt fyrir að geta varla dregið andann fyrir hita.

Það var nokkuð misjafnt hvað fólki fannst merkilegast svona sem fyrsta upplifun:

Síðan var okkur smalað saman í eina hefðbundna myndatöku og stukku allir spenntir í það þar sem það er svo erfitt að ná svona stórum hópi á góða mynd. Myndin hér að neðan er ekki í góðum gæðum því þetta er ljósmynd af myndinni okkar en þið alla vega sjáið gleðisvipinn á okkur yfir að standa loksins á þessum sögufræga stað.
Og þá var komið að því að leggja í hann. Hópurinn spratt af stað í mikilli bjartsýni en það fór fljótt að renna tvær grímur á marga. Það var ekki nóg með að fyrsti hlutinn væri brattur heldur skein sólin miskunnarlaust á okkur og gerði ferðina mun erfiðari. Fljótlega kom því að því að hópurinn leystist upp og þeir sem gátu hugsað sér að komast á toppinn brunuðu áfram og létu ekkert stoppa sig.
Hinir sem ætluðu líka á toppinn másuðu sig áfram eins langt og þeir treystu sér og hættu þar, hvar svo sem það nú var. Þeir sem hættu sér ekki langt leyfðu búðunum samt að njóta sinna YUAN og keyptu grimmt boli og húfur með Kínamúrsáletrunum. Og sumir létu tilleiðast og fengu sér ís þrátt fyrir viðvaranir og sögðust vera að borða kínverskan Nestle ís. Ó já... en góður var hann og kærkominn.
Þegar hópurinn kom saman í bílinn var ljóst hverjir fóru á toppinn og hverjir ekki. Toppfararnir litu svona út:

Á leiðinni niður vakti Telma Rós gífurlega athygli og hún þurfti að stoppa all nokkrum sinnum og pósa með einhverjum erlendum börnum og fólk snerti hárið á henni um leið og það gekk fram hjá og brosti og tautaði.. “pretty, pretty - - fire”. Og Telma lét þetta yfir sig ganga af mikilli þolinmæði. Pósaði meira segja tvisvar með einhverjum grenjuprinsi sem var haldið með henni á fyrri myndinni meðan hann grenjaði úr sér augun og svo aftur fyrir neðan múrinn og var þá aðeins rólegri. Dæmi um myndauppstillingu:

Þá var komið að næsta lið, að sjá hvernig Ming vasarnir eru búnir til og það kom okkur all flestum mjög á óvart. Þetta er allt handsmíðað úr kopar, festur á þá koparvír og límt niður svo ekkert færist til, síðan málað yfir mörg lög af málningu og alltaf brennt á milli og aftur var það vinnuaðstaðan sem fékk gífurlega athygli. Þarna sat liðið og sumir börðu kopar allan daginn meðan aðrir máluðu eða þurrkuðu málninguna af og allan tímann var hópur af fólki standandi yfir þeim til að fylgjast með. Og drengurinn í ofninum..mamma mia. Þar var heitt og hann stóð þarna inni og lét hlutina síga ofan í glóandi ofninn. Einar spurði hvort þetta væri inngangurinn að helvíti og Anna Kristín sagðist vel geta trúað því. Þetta væri allavega mjög nálægt þeim téða inngangi.

Nú var komið að mat, nammi namm enda allir að verða hungurmorða. Við fórum á veitingastað í sama húsi og þessi koparverksmiðja og þar var byrjað að hlaða á okkur mat. Á borðunum voru aðvaranir um að við mættum ekki stela prjónunum (einnota úr tré) og ekki stela snafsaglösunum en þau voru að vísu aðeins meira virði til að stela. Við náðum þó að hemja okkur og stálum engu en átum þeim mun meira. Þetta var allskonar matur allt frá frönskum á vestræna vísu til fiskiflaks með haus og öllu sem því fylgir á austræna vísu. Mjög góður matur og fínn 56% snafs þegar við loksins þorðum að skella honum í okkur. Fengum góðan og notalegan yl í brjóstkassann þannig að nú var okkur heitt bæði útvortis sem innvortist. Mjög gott. Og næsta skref? Jú auðvitað versla í koparbúðinni.... Jei ekkert fengið að eyða neinu í morgum, skellum okkur í það. Og eins og áður tókst okkur að eyða smotteríi, einu hömlurnar voru ekki peningaleysi heldur frekar tilhugsunin um ferðatöskuburð. En þetta var gaman.




Á þessari stundu voru allir að verða örmagna og við skreiddumst upp í rútu og þar hálfsváfu allir fullorðnir meira eða minna en litlu stelpurnar hjöluðu saman og flissuðu og virtust skemmta sér mjög vel. Voðalega notalegt allt saman. Allir beint upp á herbergi og ákváðu að hittast bara á hótelveitingastaðnum um kvöldið.

Veitingastaðurinn var allur í básum, eða klefum eins og Katha orðaði það. Þannig að við lentum í litlum hópum hingað og þangað. Soldið skrítið en allt í lagi. Maturinn var góður en einum hópnum var fólkið samt soldið skrítið á svipinn þegar glóðaða wokgrænmetið birtist og það var spínat í stönglum, ekkert með. Augljóslega ætlað með einhverju öðru en þjónustan var ekkert að gauka því að fólki. En þetta var líka allt í lagi því í staðinn fékk fólk hlátur útrás og það er alltaf gott.

Snjólaug og Pálína eru búnar að pakka gjöfum af miklum móð og mættu líka með gjafir handa okkur... litla bleika kjóla og húfur í stíl fyrir dæturnar svo þær geti verið allar eins í myndatöku. Gaman að þessu öllu!