Meinvill og slúðrið

Slúður af netinu um tímasetningar sem upplýsingar berast frá Kína Okkar LID er 14 nóvember 2005

31 ágúst 2007

Hutong

Fjórði dagur ferðalagsins byrjaði vel. Sól og blíða (eins og það væri eitthvað óvenjulegt) og allir vel vakandi og fínir. Barnafólkið var að vísu sumt aðeins þjáð af svefnleysi því það hefur reynst pínu erfitt að snúa tímanum við hjá litlu dömunum okkar. Þær sofna á einhverjum skrítnum tímum og glaðvakna svo um tvö á nóttunni albúnar í góðan leik. En svona getur þetta bara verið og við á leið í Hutong.

Hutong eru sérhverfi hingað og þangað um Beijing. Orðið kemur upphaflega úr mongólsku. Þýðingin er svona smástræti eða alleys á ensku. Sumar göturnar eru svo þröngar að ekki er hægt að keyra um þær á bílum og fólk ferðast því um á reiðhjólum eða rikshaw sem er hjól með vagni. Þegar maður sér þetta fyrst lítur þetta út eins og fátækrahverfi og ekkert annað. Staðreyndin er hinsvegar sú að verðið á íbúðunum þarna er gífurlega hátt og þannig kostar íbúðin sem við fengum að skoða um 20 milljón Yuan en það gerir litar 160 milljónir, já segi og skrifa MILLJÓNIR!!!



Jæja nema við eigum að fara að skoða þetta hverfi á rikshaw auðvitað og koma svo við í þessari rándýru íbúð og hjóla svo smá meira. Þetta reyndist hin mesta skemmtun, við þessi fullorðnu vorkenndum nú kallagreyjunum að vera að draga okkur mis spikfeita Íslendingana en litlu dömurnar okkar fundu nú ekki fyrir svoleiðis vorkunnsemi og skemmtu sér hið besta. Þetta var ægilega gaman en hugsið ykkur samt að vinna við svona...ÚFF


Jæja, þá kom að skoðunarferðinni. Eigandi íbúðarinnar var fyrrverandi félagi úr rauðahernum, kominn á eftirlaun 54 ára að aldri. Íbúðin hans er önnur að tveimur sem deila sama garði og er á gífurlega eftirsóttu svæði. Hann sagði okkur að í dag sé það yfirleitt eldra fólk sem búi í svona íbúðum því næðið sé akkúrat ekki neitt. Þú veist alltaf hvað nágranninn er að gera en ekki er óalgengt að 7 íbúðir deili sama garðinum. Jáhá, og við Íslendingar viljum helst öll vera út af fyrir okkur. En aftur að íbúðinni. No offense en heima myndi ekki nokkur maður borga 160 millur, nei ekki að ræða það. En það má þó bæta við að eldhúsið hans var flott...


Síðan fórum við aftur í rikshaw hjólin og kláruðum ferðina okkar. Mjög skemmtilegt allt saman. Og sölumennirnir, ohmægod! Gamla góða djammtrikkið með að horfa beint fram fyrir sig og yrða ekki á neitt virkaði ekki einu sinni til að berja þá frá. Þeir urðu bara sínu ákafari ef eitthvað var. Héngu á okkur eins mý á mygluskán og þegar hurðin á íbúðinni var opnuð þá var eins og eitthvað stórfenglegt væri að gerast því þeir mynduðu skjaldborg um okkur..haha..eiginlega soldið óþægilegt. Og þeir vissu alveg hver var með hverjum. Díana reyndi að segja þeim að hún væri með Jóni Óskari en þeir æptu “no, mam this is your husband” og reyndu að ýta henni í áttina að Þorleifi haha eftir á mjög fyndið en ekki alveg meðan á því stóð.

Nú vorum við hálfdösuð en ekki þýddi það neitt því nú lá leiðin í Silkiverksmiðjuna þar sem við ætluðum að læra allt um silki og kannski eyða smá pening því eitthvað smá var eftir frá sölumannaherferðinni. Almennilegasta stúlka sem kallaði okkur alltaf “my friends” var leiðsögumaðurinn um búðina (verksmiðjuna) og sýndi okkur allt ferlið frá A-Ö. Mjög áhugavert. Eftir á var okkur að venju sleppt lausum hala til að kaupa silkisængur og teppi og rúmföt. Það var fínt. En þegar útséð var um að við myndum eyða meiru þá opnuðu þær aðrar dyr og þar reyndust vera barnaföt og kvenföt og ýmis annar varningur. Já, já alltaf hægt að eyða smá.

Nú voru allir orðnir glorhungraðir og Villi leiðsögumaður reddaði okkur veitingastað þar sem við gátum borðað. Að því loknu skelltum við okkur í rútuna einu sinni enn til að skutlast á hótelið í betri gallann því við vorum á leið á sýningu. Acrobat sýningu þar sem fimleikafólk sýndi listir sýnar. Ótrúlegt hvað fólk getur gert, sumir eru bara hreinlega hvorki með liðamót eða bein. Og eftir sýningu trilluðum við okkur á veitingastað (hvað annað) og fengum okkur að borða (enda ekkert fengið að borða heillengi). Kata horfði á matinn með undrunarsvip og spurði svo “er alltaf svona mikill matur?” Já það er alltaf svona mikill matur, úff. Við komum heim hnöttótt úr þessari ferð, þó að vísu það líði ótrúlega langur tími milli matartíma, stundum allt að 7 tímar sem er heldur langt svona hjá venjulegu fólki.