Meinvill og slúðrið

Slúður af netinu um tímasetningar sem upplýsingar berast frá Kína Okkar LID er 14 nóvember 2005

31 ágúst 2007

Hutong

Fjórði dagur ferðalagsins byrjaði vel. Sól og blíða (eins og það væri eitthvað óvenjulegt) og allir vel vakandi og fínir. Barnafólkið var að vísu sumt aðeins þjáð af svefnleysi því það hefur reynst pínu erfitt að snúa tímanum við hjá litlu dömunum okkar. Þær sofna á einhverjum skrítnum tímum og glaðvakna svo um tvö á nóttunni albúnar í góðan leik. En svona getur þetta bara verið og við á leið í Hutong.

Hutong eru sérhverfi hingað og þangað um Beijing. Orðið kemur upphaflega úr mongólsku. Þýðingin er svona smástræti eða alleys á ensku. Sumar göturnar eru svo þröngar að ekki er hægt að keyra um þær á bílum og fólk ferðast því um á reiðhjólum eða rikshaw sem er hjól með vagni. Þegar maður sér þetta fyrst lítur þetta út eins og fátækrahverfi og ekkert annað. Staðreyndin er hinsvegar sú að verðið á íbúðunum þarna er gífurlega hátt og þannig kostar íbúðin sem við fengum að skoða um 20 milljón Yuan en það gerir litar 160 milljónir, já segi og skrifa MILLJÓNIR!!!



Jæja nema við eigum að fara að skoða þetta hverfi á rikshaw auðvitað og koma svo við í þessari rándýru íbúð og hjóla svo smá meira. Þetta reyndist hin mesta skemmtun, við þessi fullorðnu vorkenndum nú kallagreyjunum að vera að draga okkur mis spikfeita Íslendingana en litlu dömurnar okkar fundu nú ekki fyrir svoleiðis vorkunnsemi og skemmtu sér hið besta. Þetta var ægilega gaman en hugsið ykkur samt að vinna við svona...ÚFF


Jæja, þá kom að skoðunarferðinni. Eigandi íbúðarinnar var fyrrverandi félagi úr rauðahernum, kominn á eftirlaun 54 ára að aldri. Íbúðin hans er önnur að tveimur sem deila sama garði og er á gífurlega eftirsóttu svæði. Hann sagði okkur að í dag sé það yfirleitt eldra fólk sem búi í svona íbúðum því næðið sé akkúrat ekki neitt. Þú veist alltaf hvað nágranninn er að gera en ekki er óalgengt að 7 íbúðir deili sama garðinum. Jáhá, og við Íslendingar viljum helst öll vera út af fyrir okkur. En aftur að íbúðinni. No offense en heima myndi ekki nokkur maður borga 160 millur, nei ekki að ræða það. En það má þó bæta við að eldhúsið hans var flott...


Síðan fórum við aftur í rikshaw hjólin og kláruðum ferðina okkar. Mjög skemmtilegt allt saman. Og sölumennirnir, ohmægod! Gamla góða djammtrikkið með að horfa beint fram fyrir sig og yrða ekki á neitt virkaði ekki einu sinni til að berja þá frá. Þeir urðu bara sínu ákafari ef eitthvað var. Héngu á okkur eins mý á mygluskán og þegar hurðin á íbúðinni var opnuð þá var eins og eitthvað stórfenglegt væri að gerast því þeir mynduðu skjaldborg um okkur..haha..eiginlega soldið óþægilegt. Og þeir vissu alveg hver var með hverjum. Díana reyndi að segja þeim að hún væri með Jóni Óskari en þeir æptu “no, mam this is your husband” og reyndu að ýta henni í áttina að Þorleifi haha eftir á mjög fyndið en ekki alveg meðan á því stóð.

Nú vorum við hálfdösuð en ekki þýddi það neitt því nú lá leiðin í Silkiverksmiðjuna þar sem við ætluðum að læra allt um silki og kannski eyða smá pening því eitthvað smá var eftir frá sölumannaherferðinni. Almennilegasta stúlka sem kallaði okkur alltaf “my friends” var leiðsögumaðurinn um búðina (verksmiðjuna) og sýndi okkur allt ferlið frá A-Ö. Mjög áhugavert. Eftir á var okkur að venju sleppt lausum hala til að kaupa silkisængur og teppi og rúmföt. Það var fínt. En þegar útséð var um að við myndum eyða meiru þá opnuðu þær aðrar dyr og þar reyndust vera barnaföt og kvenföt og ýmis annar varningur. Já, já alltaf hægt að eyða smá.

Nú voru allir orðnir glorhungraðir og Villi leiðsögumaður reddaði okkur veitingastað þar sem við gátum borðað. Að því loknu skelltum við okkur í rútuna einu sinni enn til að skutlast á hótelið í betri gallann því við vorum á leið á sýningu. Acrobat sýningu þar sem fimleikafólk sýndi listir sýnar. Ótrúlegt hvað fólk getur gert, sumir eru bara hreinlega hvorki með liðamót eða bein. Og eftir sýningu trilluðum við okkur á veitingastað (hvað annað) og fengum okkur að borða (enda ekkert fengið að borða heillengi). Kata horfði á matinn með undrunarsvip og spurði svo “er alltaf svona mikill matur?” Já það er alltaf svona mikill matur, úff. Við komum heim hnöttótt úr þessari ferð, þó að vísu það líði ótrúlega langur tími milli matartíma, stundum allt að 7 tímar sem er heldur langt svona hjá venjulegu fólki.

29 ágúst 2007

Kínamúrinn

Þá er komið að stóra deginum sem allir hafa beðið eftir, KÍNAMÚRINN. Núna rennur upp fyrir okkur ljós að við erum loksins komin til Kína og byrjuð að tikka við það sem þarf að gera áður en við fáum stelpukornin okkar í fangið...Kínamúrinn tikk, jade verksmiðjan tikk og Ming vasarnir tikk. Sko þetta er allt að koma!!!!

En svona að þessu frátöldu þá áttum við frábæran dag. Að vísu var hitinn allt að því óbærilegur á köflum en hvaða sannur Íslendingur lætur smá hita nokkuð á sig fá? Menn höfðu það að vísu mis gott og þannig voru sumir yngri meðlimir hópsins að hluta til í kerrum sínum með skyggni til að verja sig fyrir mestu sólinni. William leiðsögumaður sagðist hafa hringt í Blue Skye Corporation til að panta bláan himinn og þeir hlusta greinilega á hann því veðrið var allt annað í dag heldur en í gær þegar mistur lá yfir öllu.

Ferðin hófst rúmlega 9 og voru allir með. Við byrjuðum á því að fara í jadeverksmiðju og sjá hvernig hinir og þessir jade hlutir eru gerðir og það verður að viðurkennast að vinnuaðstaða fólksins er ekki til að hrópa húrra fyrir. Vinnuljósið var ljósapera með dagblaði til að dreifa birtunni og vatnið sem gaurarnir notuðu til að slípa jaded kom í fötum sem héngu fyrir ofan hausana á þeim og þegar það kláraðist trilluðu þeir fram með tóma fötu og náðu í meira til að hella í fötuna. Merkilegt og svona líka flottir hlutir sem þeir búa til.

Okkur var síðan sleppt lausum þarna inni og gátu allir eða allavega flestir fundið eitthvað til að eyða í. William er ekki alveg búinn að fatta hversu hratt Íslendingar í kaupham fara yfir þannig að stoppið varð frekar langt og held ég að margir hafi verið búnir að fara nokkra hringi um svæðið með tilheyrandi afleiðingum. En þegar hér var komið voru allir í besta skapi því hvað er betra en byrja daginn á smá VISA fjöri.

Okkur tókst að finna rútuna okkur aftur og brunuðum nú beint á Kínamúrinn eða eins langt og við gátum keyrt. Við stukkum úr rútunni eins og ótamdir gemlingar og byrjuðum að mynda af miklum móð þrátt fyrir að geta varla dregið andann fyrir hita.

Það var nokkuð misjafnt hvað fólki fannst merkilegast svona sem fyrsta upplifun:

Síðan var okkur smalað saman í eina hefðbundna myndatöku og stukku allir spenntir í það þar sem það er svo erfitt að ná svona stórum hópi á góða mynd. Myndin hér að neðan er ekki í góðum gæðum því þetta er ljósmynd af myndinni okkar en þið alla vega sjáið gleðisvipinn á okkur yfir að standa loksins á þessum sögufræga stað.
Og þá var komið að því að leggja í hann. Hópurinn spratt af stað í mikilli bjartsýni en það fór fljótt að renna tvær grímur á marga. Það var ekki nóg með að fyrsti hlutinn væri brattur heldur skein sólin miskunnarlaust á okkur og gerði ferðina mun erfiðari. Fljótlega kom því að því að hópurinn leystist upp og þeir sem gátu hugsað sér að komast á toppinn brunuðu áfram og létu ekkert stoppa sig.
Hinir sem ætluðu líka á toppinn másuðu sig áfram eins langt og þeir treystu sér og hættu þar, hvar svo sem það nú var. Þeir sem hættu sér ekki langt leyfðu búðunum samt að njóta sinna YUAN og keyptu grimmt boli og húfur með Kínamúrsáletrunum. Og sumir létu tilleiðast og fengu sér ís þrátt fyrir viðvaranir og sögðust vera að borða kínverskan Nestle ís. Ó já... en góður var hann og kærkominn.
Þegar hópurinn kom saman í bílinn var ljóst hverjir fóru á toppinn og hverjir ekki. Toppfararnir litu svona út:

Á leiðinni niður vakti Telma Rós gífurlega athygli og hún þurfti að stoppa all nokkrum sinnum og pósa með einhverjum erlendum börnum og fólk snerti hárið á henni um leið og það gekk fram hjá og brosti og tautaði.. “pretty, pretty - - fire”. Og Telma lét þetta yfir sig ganga af mikilli þolinmæði. Pósaði meira segja tvisvar með einhverjum grenjuprinsi sem var haldið með henni á fyrri myndinni meðan hann grenjaði úr sér augun og svo aftur fyrir neðan múrinn og var þá aðeins rólegri. Dæmi um myndauppstillingu:

Þá var komið að næsta lið, að sjá hvernig Ming vasarnir eru búnir til og það kom okkur all flestum mjög á óvart. Þetta er allt handsmíðað úr kopar, festur á þá koparvír og límt niður svo ekkert færist til, síðan málað yfir mörg lög af málningu og alltaf brennt á milli og aftur var það vinnuaðstaðan sem fékk gífurlega athygli. Þarna sat liðið og sumir börðu kopar allan daginn meðan aðrir máluðu eða þurrkuðu málninguna af og allan tímann var hópur af fólki standandi yfir þeim til að fylgjast með. Og drengurinn í ofninum..mamma mia. Þar var heitt og hann stóð þarna inni og lét hlutina síga ofan í glóandi ofninn. Einar spurði hvort þetta væri inngangurinn að helvíti og Anna Kristín sagðist vel geta trúað því. Þetta væri allavega mjög nálægt þeim téða inngangi.

Nú var komið að mat, nammi namm enda allir að verða hungurmorða. Við fórum á veitingastað í sama húsi og þessi koparverksmiðja og þar var byrjað að hlaða á okkur mat. Á borðunum voru aðvaranir um að við mættum ekki stela prjónunum (einnota úr tré) og ekki stela snafsaglösunum en þau voru að vísu aðeins meira virði til að stela. Við náðum þó að hemja okkur og stálum engu en átum þeim mun meira. Þetta var allskonar matur allt frá frönskum á vestræna vísu til fiskiflaks með haus og öllu sem því fylgir á austræna vísu. Mjög góður matur og fínn 56% snafs þegar við loksins þorðum að skella honum í okkur. Fengum góðan og notalegan yl í brjóstkassann þannig að nú var okkur heitt bæði útvortis sem innvortist. Mjög gott. Og næsta skref? Jú auðvitað versla í koparbúðinni.... Jei ekkert fengið að eyða neinu í morgum, skellum okkur í það. Og eins og áður tókst okkur að eyða smotteríi, einu hömlurnar voru ekki peningaleysi heldur frekar tilhugsunin um ferðatöskuburð. En þetta var gaman.




Á þessari stundu voru allir að verða örmagna og við skreiddumst upp í rútu og þar hálfsváfu allir fullorðnir meira eða minna en litlu stelpurnar hjöluðu saman og flissuðu og virtust skemmta sér mjög vel. Voðalega notalegt allt saman. Allir beint upp á herbergi og ákváðu að hittast bara á hótelveitingastaðnum um kvöldið.

Veitingastaðurinn var allur í básum, eða klefum eins og Katha orðaði það. Þannig að við lentum í litlum hópum hingað og þangað. Soldið skrítið en allt í lagi. Maturinn var góður en einum hópnum var fólkið samt soldið skrítið á svipinn þegar glóðaða wokgrænmetið birtist og það var spínat í stönglum, ekkert með. Augljóslega ætlað með einhverju öðru en þjónustan var ekkert að gauka því að fólki. En þetta var líka allt í lagi því í staðinn fékk fólk hlátur útrás og það er alltaf gott.

Snjólaug og Pálína eru búnar að pakka gjöfum af miklum móð og mættu líka með gjafir handa okkur... litla bleika kjóla og húfur í stíl fyrir dæturnar svo þær geti verið allar eins í myndatöku. Gaman að þessu öllu!

Breytt plan

Anna Kristín eyddi nærri þremur tímum sunnudaginn fyrir brottför í að færa yfir öll forrit sem þurfti til að skrifa hópasíðuna sem er búin að vera tilbúin í tvö ár. Klikkaði síðan á því að tékka á því að Frontpage væri á tölvunni sem aftur varð til þess að öll skipulagning flaug út í bláinn. Þetta er því plan B. Og kannski bara skemmtilegra að það fari ekki allt eins og ætlað er.

Stokkhólmur
Fyrsti hluti ferðarinnar var til Stokkhólms á mánudagsmorgni. Snjólaug, Ragnar og börn fóru að vísu aðeins fyrr og nutu samvista við fjölskyldu sína sem býr í Stokkhólmi. Aðrir flugu á mánudagsmorgni og strax á Leifsstöð kom fyrsta babbið í bátinn. Nefnilega að flestir voru með skráð á sig INFANT sem ekki var með í för og átti ekki að vera með nema í heimferð. Misjafnlega vel gekk að vinna úr þessu og voru tvær fjölskyldur settar í gífurlega spennu meðan unnið var úr þeirra málum en í fyrstu yppti starfsfólk Leifsstöðvar bara öxlum og sagðist ekkert geta gert. Á meðan biðu hinir sem komnir voru inn í taugakasti hvað yrði úr þessu. Það tókst að redda málunum en þessar tvær fjölskyldur voru bókaðar alla leið til Beijing meðan hinir sem höfðu sloppið betur inn þurftu að skrá sig aftur inn í Stokkhólmi og þá kom téður INFANT aftur upp á skjáinn hjá flestum. Ekki alveg gott fyrir taugakerfið í fyrstu lotu.

Við áttum nokkra tíma í Stokkhólmi og fóru flestir í íbúðina til Snjólaugar og hennar fjölskyldu og fengu að geyma töskur og dót. Fóru þaðan í ýmsar áttir, sumir í gönguferð niður í gamla Stannen, aðrir í garð með börnin og síðan í smá (SMÁ) HM ferð sem vakti mikla öfund hjá þeim sem ekki fóru. Þeir sem ekki fóru til Snjólaugar brugðu sér í Junibakken sem er skemmtigarður Astrid Lindgren. Allir áttu glaðan dag en voru samt bara með hálfan hugann við það sem fram fór. Hugurinn var kominn til Kína og við mættum eldsnemma á völlinn og biðum þar og biðum.



Flugið gekk vel og var á undan áætlun og við reyndum nú að sofa í vélinni en gekk misvel. Það voru því allmargir framlágir á flugvellinum í Beijing í steikjandi hita en þar biðu William og Ivy eftir okkur skælbrosandi og glöð. Ekki að sjá á þeim að þau hefðu misst úr nokkurn svefn nýlega. Þau skutluðu okkur á hótelið og lögðu okkur einhverjar lífsreglur varðandi næsta dag sem er Kínamúrsdagur.



Hótelherbergin reyndust vera risastór og nær því að vera íbúð hjá sumum. Sumir eru með hornbaðkar meðan aðrir eru með einhver dýryndis nuddkör. Sumir hafa tvö sjónvörp og svo framvegis. Og um sexleytið mætir þjónustufraukan og dregur af rúmunum og stillir upp inniskóm fyrir framan rúmin og Anna Kristín sem lá í sófa fékk þá extra þjónustu að fraukan stökk og dró frá sjónvarpinu og rétti henni fjarstýringuna svo hún þyrfti örugglega ekkert að hreyfa sig. VERY NÆS!!!!!
Fyrsta kvöldið fóru allflestir saman á veitingastað í nágrenninu þar sem voru bara myndir á matseðlinum. Þetta var heilmikil upplifun og t.d. reyndust núðlurnar vera smokkfiskur og eitthvað fleira svona smávegis sem allir gátu hlegið að. EN Þetta reyndist heilmikil veisla og síðan fóru Allir að SOFA enda klukkan orðin 20.30 og ekki gott að vera lengi á fótum haha…. Meira síðar...



24 ágúst 2007

Styttist!

Það er alveg að koma að þessu hjá okkur! Fyrsta fjölskyldan í hópnum, Snjólaug, Ragnar og börn, flugu til Stokkhólms í gærdag og við hin fljúgum á mánudagsmorgun. Þetta varð allmiklu raunverulegra við að þau væru flogin af stað ÚFFFFFFF

Þetta er því síðasti pósturinn á þessa síðu í bili, nema ef síðan fyrir hóp 16, þessi hér virkar ekki en þá mun þessi verða notuð sem bakkupp. Þannig að nú er best að hella sér beint í stressið.... og klára undirbúninginn!

20 ágúst 2007

Ekki mikið slúður

Lítið slúður ennþá um lokadag næstu upplýsinga en fyrstu fregnir herma að þeir klári 24 nóv. Það ætti því ekki að taka nema einn mánuð ennþá að klára nóvember hinn risastóra mánuð. Og þá fer að styttast í að þeir geti farið að afgreiða einn mánuð á tveggja mánaða fresti, þeas hálfan mánuð í einu en þeir hafa sagt að þeir geti byrjað á því 2008. Vonandi er það rétt, og þó helst fyrr ;)

Af ferðalöngunum fræknu er það að segja að við erum öll að verða tilbúin. Fengum farmiða í hendur á föstudaginn. Þetta varð mjög raunverulegt þegar við héldum á farmiða á nafni Xue FuYun, ohmægod það er að koma að þessu og hún er raunveruleg. Við sátum bara og mændum á miðann með hálfvitaglotti. Sætt samt hehe

13 ágúst 2007

Viðbrögð barna fyrsta daginn

Sagt er að gróflega megi skipta viðbrögum barnanna fyrsta daginn í fernt:
1. Hamingjusama barnið sem brosir strax og er ánægt með foreldrum sínum.
Þetta barn þarf að læra að brosa aðeins við foreldrum sínum og ekki til allra fullorðinna sem birtast nálægt. Á afhendingardaginn er þetta barn auðveldasta barnið fyrir nýju foreldrana. Það myndar tengsl auðveldlega þar sem þessi hegðun virkaði vel á barnaheimilinu þar sem brosin gátu gefið því auka athygli frá yfirkeyrðu starfsfólkinu.

2. Grátandi barnið sem lítur á foreldrana og byrjar að gráta um leið.
Þetta er erfitt barn fyrir foreldrana því það gæti grátið í nokkra daga. En þetta er barn sem veit sínu viti og þess vegna grætur það. Það veit að lífið hefur breyst og það hefur misst alla stjórn. Foreldrarnir verða að sanna sig fyrir þessu barni áður en þau fá verðlaunin í formi bros.

3. Alvarlega barnið sem skoðar foreldrana og íhugar nýju aðstæðurnar.
Barnið er tilbúið að verðlauna foreldri með brosum en er vart um sig um leið. Barnið gerir sér grein fyrir að miklar breytingar hafa átt sér stað en er rólegt meðan það íhugar aðstæður sínar. Þetta barn getur hrætt foreldra sína vegna þess hvernig það virðist vera inni í sér og bregðast illa við áreitum. En í rauninni er barnið eingöngu að átta sig á nýjum aðstæðum og er tilbúið að verðlauna fjölskyldu sína með brosi um leið og það finnur til öryggis.

4. "Velcro" barnið.
Að síðustu er það barnið sem veit það þarfnast ástar og umhyggju strax og hengir sig á annað foreldrið, yfirleitt pabbann. Þetta barn bregst við nýjum kringumstæðum með því að finna eina manneskju sem sér um þarfir þess og brosir því nær eingöngu til þeirrar manneskju. Þetta barn reynir mjög á tilfinningar þess foreldris sem er úti í kuldanum og þarfnast þolinmæði og skilnings þar til það ákveður að útvíkka heiminn sinn það mikið að hann rúmi tvo foreldra og stærri fjölskyldu.

Hljómar þetta sennilega? Þið sem hafið reynt þetta? Ég fann þetta á netinu og þetta er sagt koma frá "guide" í einni ferðinni.

10 ágúst 2007

Stundum fer ekki allt eins og ætlað er

Ætla setja hér inn tvær sögur frá síðustu upplýsingum (ágúst) til að sýna að allt getur gerst. Fyrra dæmið er fjölskylda sem fékk engar upplýsingar og engar skýringar á því hversvegna. Það eru tvær aðrar fjölskyldur með sama LID hjá umboðinu hennar og þær fjölskyldur fengu sínar upplýsingar. Umboðið segist ekkert vita hvers vegna þeim var sleppt og vill ekki gera neitt til að tékka á því. Ég veit ekki hver er staðan hjá þeim núna en þau fengu veit ég upplýsingar hjá konunni sem var sleppt í mars um hvernig ætti að bera sig að við að tékka á því hvað væri að gerast.

Hitt dæmið er öllu verra og sorglegra. Fjölskylda með LID 18 nóv fékk upplýsingar um barn og fóru með upplýsingarnar til læknis áður en þau samþykktu og þar risu upp mörg rauð flögg sem varð til þess að leitað var eftir frekari upplýsingum og þá kom í ljós að barnið hefði átt að vera í SN en ekki í NSN. Þessi fjölskylda treysti sér ekki til að taka barnið þar sem þau eiga fyrir son sem er einhverfur og getur ekki tjáð sig. Þetta sýnir að það er eins gott að læknir les yfir allar okkar skýrslur vegna þess að við sem ekki eru þjálfuð til að lesa úr svona upplýsingum við sjáum ekki hvað getur verið athugavert. Þetta er náttúrulega voðalega sorglegt fyrir alla aðila en samt betra að svona komi upp áður en farið er til Kína og þar lendir fólk kannski í því að neita að taka við barninu. Það er víst alltaf að gerast og er víst skelfilegur process. Og ekki er víst að þau börn verði ættleidd því oft eru þau þá orðin of gömul til þess að flokkast sem NSN því pappírsvinnan er svo mikil ef þau lenda aftur inn í kerfið.

Þetta eru jú undantekningar, það eru miklu fleiri sem fara vel. Hinsvegar finnst mér athyglisvert að þessi bæði tilfelli eru úr sama mánuði.

07 ágúst 2007

Allt er breytingum háð

Ég held að það sé alveg á hreinu að þessi síða er að breytast. Áhuginn á stöðu mála í Kína er aðeins minni í augnablikinu því það kemst ekkert annað að en staðan hjá okkur sjálfum ;). Ég ætla að halda henni opinni alla vega þar til eftir Kínaferð því ég veit ekki alveg hvernig okkur gengur að pósta á sameiginlega síðu hópsins og þessi verður því eins konar bakkupp fyrir ferðina. Síðan hugsa ég að hún lokist bara. Það eru allar upplýsingar á síðunni hjá RQ sem er óþreytandi að birta nýjar upplýsingar. T.d eru núna upplýsingar um líklega stærð desember o5 og janúar o6 og pælingar í áframhaldi af því. Læt henni því eftir þennan þátt mála en breyti þessari síðu í aðeins heimilislegri síðu eða almenna undirbúningssíðu fyrir Kína;)

Við erum að skoða pakklista og það er mikið fyndið að skoða þá suma. Sumir hafa nánast ekkert með sér meðan aðrir eru með með hluti sem virka stjarnfræðilega furðulegir í mínum augum. Ég hef hinsvegar aldrei pakkað fyrir barn fyrr og aldrei ferðast með barn, jú fyrir utan Flórens ferðina um daginn þegar Molinn kom með mér heim en þá sá mamma hans um pökkunina. Ég sá bara um að finna réttar leiðir. Það er því soldið undarlegt að horfa á pakklistana og reyna að hugsa hvað það nú er sem ég gæti komið til með að nota. Bleyjur og samfellur, huh? og pokann víðfræga? Nú er Yun orðin svo stór að það er ekkert víst að hún vilji neitt með svona kengúrupoka hafa en verð ég samt ekki að taka hann með svona in keis? Ég hugsa að ég geti nefnilega orðið all þreytt að bera þessi auka 10 kg (nærri 11 ef síðustu tölur eru réttar) um Kína. Hvað með pela? Hvað segið þið konur sem hafið fengið börn sem eru þetta gömul? (hún verður 16 mánaða þegar við fáum hana í fangið). Tókuð þið með pela og þá hvernig pela? haha þetta er eins og annað land fyrir mér, ég hef jú auðvitað séð þetta dót allt saman en þetta virkar allt mjög flókið, stærðir og mismunandi gerðir og útlit og allt það...

En spenningurinn er orðinn mikill!!!

03 ágúst 2007

Upplýsingar komnar

Upplýsingar eru komnar fyrir ágúst mánuð og ég verð að viðurkenna að mér finnst mjög stutt síðan síðustu upplýsingar komu. Það leið sko ekki svona stuttur tíma á milli meðan við vorum að bíða. Þetta fer sem sagt alveg eftir því hvar maður er staddur í ferlinu ;) Nú fer að styttast í að þeir klári nóvember og þá er bara desember eftir af árinu 2005 og eftir það fer vonandi að gerast eitthvað aðeins meira. En ég hef séð nokkra spá því að þegar yfirferð 2005 sé lokið þá sé líklegt að farið verði að birta 2 vikna skammt í stað þess sem nú er gert.

01 ágúst 2007

Næsta cutoff

Það er komin óopinber staðfesting á að næsta cutoff fyrir upplýsingar sé 21 nóv. Það eru 7 dagar. Sem er ekki slæmt því það er vitað að 22 nóv er stór, stór dagur. Það ætlar að ganga eftir að það taki 4-5 mánuði að fara yfir nóvember.
maí: 1 nóv
Júni: 2-7 nóv
Júlí: 8-14 nóv
Ágúst 15-21 nóv??
September: 22-27 eða 28 nóv
Október: rest af nóv og byrjun des.