Meinvill og slúðrið

Slúður af netinu um tímasetningar sem upplýsingar berast frá Kína Okkar LID er 14 nóvember 2005

02 september 2007

Wuhan stress

Jæja já, við erum komin til Wuhan. Ég veit það vantar einn dag inn í færsluskrifin en það verður að bíða eftir aðeins meiri tíma. Við erum búin að vera að þvælast í allan dag. Flug frá Bejing til Wuhan tekur samt bara rétt um 2 tíma en það er bara svona með ferðalög einhvern veginn ná þau að teygjast yfir heilu dagana.

Hér eru allir að fara yfir um af stressi og við getum ekki talað um neitt nema pela, túttur, mjólk og...ó hvað fleira þarf svona lítið ókunnugt barn? Já já ok, við finnum út úr því snuð og teppi.... nei ekki teppi það er svo ógeðslega heitt... en hei þær hafa eflaust ekki vanist loftkælingu, OK tökum teppi með fyrir rútuna. Hvað með snuð? Nota þær svoleiðis? Já tökum þau með til öryggis og Cheerios, og matarkex og sitthvað fleira. Það endar með því að við getum eflaust skilið bakpokana eftir hér á hótelinu og tekið bara með okkur ferðatöskurnar. Þær eru þó alla vega á hjólum!

Fyrsta panikkkastið kom á hótelinu í Beijing þegar einhver rak augun átta kerrur í móttökunni á hótelinu. Allar innpakkaðar og greinilega að bíða eftir eigendum sínu. Fréttirnar fóru um eins og eldur í sinu og allir gerðu sér ferð í mótttökuna til að kíkja inn fyrir borðið meðan fólkið á hótelinu hélt eflaust að við værum að missa glóruna. Hópur af útlendingum ráfandi um gólfið og gjóandi augunum á bak við þau og flissandi eins og smástelpur. Bara gaman að þessu. Næsta panikk kast kom þegar við sáum hótelherbergið í Wuhan og þar biðu okkar uppábúin rimlarúm, nú fer að færast fjör í hópinn. Að vísu var hótelfólkið búið að færa okkur bækling fyrir fyrstu dagana í lífi barnsins hjá okkar og þarna stóðum við eins og hálfvitar með aulaglott á andlitunum og sambandslaus við allt nema þennan litla sæta bækling.

Við fengum nýjan guide hér í Wuhan og hún heitir Christina. Hún hefur reynslu af börnum því hún er mamma sjálf. Villi okkar blessaður er besta skinn og fínn leiðsögumaður en hann veit ekki mikið um börn, það er augljóst en við fyrirgefum honum það því hann er okkar ómissandi hjálparhella. Hinsvegar eigum við eftir að gleypa Christinu með húð og hári því okkur vantar svo upplýsingar. Við erum komin með þær upplýsingar að litlu stelpurnar okkar eru á þessari stundu enn þá hjá fósturfjölskyldum sínum og þær grunar ekki hvað þær eiga í vændum. Þær hafa aldrei fengið neitt annað en heita fæðu og drykki allt sitt stutta líf. Meira segja eplasafinn er hitaður þannig að það er kannski ekki von að við vesalingarnir frá kalda Íslandi séum í stresskasti yfir þessu öllu og sjáum helst fyrir okkur að börnin svelti í hel áður en við komust aftur til baka á hótelið.

En svona að öllu gamni slepptu þá eru núna innan við ellefu tímar þar til við hittumst og nú er best að koma sér í háttinn til að vera vel undir þetta búinn. Hasta la vista baby og við heyrumst aftur á morgun eftir að líf okkar hefur tekið kaflaskipti svo um munar...