Meinvill og slúðrið

Slúður af netinu um tímasetningar sem upplýsingar berast frá Kína Okkar LID er 14 nóvember 2005

13 júlí 2006

Fullt af slúðri

Þá er komið að slúðri dagsins. Það hefur greinilega verið brjálað að gera í gærkvöldi því það eru svo margar færslur hjá RQ. Það er að vísu lítið á öðrum síðum en hennar. Kannski er fólk bara almennt farið að senda henni allt þannig að þetta sé allt á einum stað, hver veit.
En sem sagt það helsta sem er á ferðinni núna er eftirfarandi:

  1. Umboð í USA segir að það séu svipað margar umsóknir í júlí eins og í maí og júní. Það er ekki ljóst hvað þeir meina. Hvort þeir meina að júlí sé svipað stór og báðir samanlagt eða hvor um sig. Það er mjög hæpið að hann sé eins stór og hvor þeirra um sig því allar upplýsingar benda til annars. Held að þetta sé bara eitthvað bull.
  2. Síðan eru einhver skilaboð um að fréttir frá Ástralíu (varðandi heimsókn CCAA) eigi eftir að versna og það sjáist á næstu mánuðum. Ég skil þessa setningu ekki og ætla ekki einu sinni að reyna að búa til almennilega samsæriskenningu um þetta.
  3. Það eru líka fréttir frá Ástralíu að CCAA segist vilja halda sig við 10-12 mánaða tímarammann. Þeir eru að vísu löngu komnir upp úr 10 mánuðunum og eru að skríða yfir 13 mánuðina. En þetta skýrist kannski með næstu upplýsingum.
  4. Það eru enn nokkur umboð sem halda sig við að biðtími eftir upplýsingum verði á bilinu 18-24 mánuðir og það muni áfram taka 3-4 mánuði að fara í gegnum hvern mánuð.
  5. Varðandi hvort CCAA stökkvi upp í heilan mánuð næst þá er gaman að skoða síðustu mánuði og sjá hvernig staðan hefur verið:
    Júní=13 dagar, maí=9, apríl=7, mars=5, febrúar=12, janúar 11 og 18 dagar (uppl. Komu tvisvar fyrst 5 jan og svo aftur 25 jan.), desember=14 dagar, nóvember=16, október=14 (hér byrja stuttu mánuðirnir), september = 32 dagar, ágúst= engar upplýsingar, júlí =38 dagar osfrv.
    Hér sést því greinilega að það er ekki hægt að segja að það sé neitt ákveðið munstur. T.d komu engar upplýsingar í ágúst 2005 en 38 dagar í júlí og 32 í september. Og í janúar komu upplýsingarnar tvisvar. Þannig að það er óhætt að segja að við getum reiknað með öllu.
  6. Síðan sá ég að fólk er að tala um að þeir sem ættleiða frá Guangdong og þurfa að gista í Guangzhou komi til með að lengja ferðirnar. Það er að segja það þurfi að vera auka 5 daga þar til að fá einhverja pappíra til þess að geta sótt um kínverskt vegabréf. Þetta eigi að byrja núna 1. ágúst 2006. það eru tvö umboð búin að senda þessar upplýsingar til sinna skjólstæðinga. Ekki er vitað hvort þetta komi til með að gilda um önnur “province” líka. Ég hef ekki hugmynd um það hvort þetta hafi einhver áhrif á okkur hér. Ég er ennþá svo agalega rugluð í þessum provincum að ég átta mig ekki á því hvort við höfum ættleitt þaðan, það getur kannski einhver svarað sem veit betur en ég.