Meinvill og slúðrið

Slúður af netinu um tímasetningar sem upplýsingar berast frá Kína Okkar LID er 14 nóvember 2005

05 september 2006

Hugleiðingar

Ég er áskrifandi af yahoo grúbbu þar sem hægt er að spyrja spurninga um Kína og Kínatengd atriði. Í síðustu viku spurði einhver eiganda grúbbunnar hvort hún hefði einhverja skoðun á því hvers vegna hægt hefði svona á ættleiðingarferlinu í Kína (hún er Ameríkani búsett í Kína og hefur ættleitt eina dóttur frá Kína og vinnur við að skipuleggja ferðir í Kína tengdar ættleiðingum). Hún telur að eftirfarandi atriði geti átt sök á þessum töfum:
  1. Það er ekki mjög langt síðan CCAA tók við ábyrgð á öllum munðarleysingjaheimilunum í Kína en þau eru 1000 og dreifð um allt landið. Af þeim eru “aðeins” 250 sem hafa leyfi til að ættleiða erlendis. CCAA hefur þurft tíma til að aðlaga sig að því að hafa fengið þessa viðbót við sitt starfsvið.
  2. Ættleiðingar innanlands í Kína hafa aukist og njóta stuðnings stjórnvalda.
  3. Fjölmiðlaumfjöllunin um Hunan barnsmálin hefur haft þau hliðaráhrif að CCAA hefur mun miklu meira að gera.
  4. Það er ábyrgðarhluti hjá CCAA að hægja á hlutunum til þess að geta þjálfað starfslið sitt upp til að sinna hinni auknu ábyrgð CCAA, til þess að hafa tíma til að þjálfa nýtt starfslið og til þess að vera í startholunum ef innlandsættleiðingarnar aukast að miklu magni.
  5. Það er ólíklegt að ættleiðingar erlendis hætti því ættleiðingarnar skapa miklar tekjur
  6. Nú er því hlutverk CCAA að líta eftir öllum börnum á munaðarleysingjaheimilum í Kína ekki bara börnum á þeim heimilum sem sinna ættleiðingum erlendis.

Já svo mörg voru þau orð. Það hefur hægt mjög mikið á ferlinu. Svo mikið að það þorir varla nokkur maður að vera með bjartsýnisspár lengur. Þó er það athyglisvert að enn er eitt umboð sem spáir því að þeir sem eru með LID í des ættu að fá upplýsingar í des. Það er því miður ekki fræðilegur möguleiki því til þess að það ætti að vera hægt þurfa þeir að auka afköst sín um mörg hundruð prósent á mánuði og ef það er rétt að það séu ekki nógu mörg börn tilbúin til ættleiðingar (hefur eitthvað að gera með pappírsmál) þá geta þeir ekki aukið afköstin að neinu magni. Mér finnst eins og verið sé að gera grín að fólki með því að vera að veifa þessum desember fram. En ekki eru svartsýnisspárnar betri. Þó nokkur umboð hafa þegar lýst því yfir að þau reikni ekki með því að júlí klárist næst heldur nái upplýsingar aðeins til 28 júlí. Ef það reynist rétt þá fara þeir yfir júlí á fjórum mánuðum.. en hvort sem þeir ná júlí öllum eða ekki þá er það staðreynd að þeir eru alla vega þrjá mánuði að fara yfir hann og það virðist vera tíminn sem er kominn til að vera. Sama hvort okkur líkar það betur eða verr. Hinsvegar er augljóst að þetta er ekki tími sem verður lengi þannig, á einhverjum tímapunkti verður hægt að auka hraðann aftur því annars hættir fólk að sækja um. Fólk sem er að sækja um núna er að horfa á a.m.k. þriggja ára bið með þessu áframhaldi og það gengur ekki alveg upp. Það er bara spurning á hvaða tímapunkti þeir fara að hraða sér. Persónulega tel ég að það verði ekki fyrr en eftir áramót. Ég er að dunda mér við að skoða hvenær þetta hægðist svona mikið og ætla að setja fram einhverjar hugleiðingar um það á morgun reikna ég með.