Meinvill og slúðrið

Slúður af netinu um tímasetningar sem upplýsingar berast frá Kína Okkar LID er 14 nóvember 2005

09 ágúst 2006

Af hverju allar þessar misvísandi upplýsingar?

Það er undarlegt hvernig þetta slúður virkar. Einn segir þetta og annar segir eitthvað allt annað. Einn segir t.d. að bið eftir upplýsingum muni ekki fara upp fyrir 12 mánuði meðan sá næsti segir að biðin muni fara upp í amk 18 mánuði. (Þeir sem hafa beðið lengst núna verða búnir að bíða í 13 mánuði 14 ágúst). Jæja og hvert er ég að fara með þetta sem við vitum öll? Jú RQ skrifaði í gær hvernig hún telur að þetta virki og hvers vegna upplýsingarnar séu svona misvísandi:

Hún telur að starfsmaður í "review" herberginu segi eitt á meðan starfsmaður í "matching" herberginu segi eitthvað allt annað og meðan séu tveir yfirmenn sem líka gefa sitthvorar upplýsingarnar. Þannig sé hægt að spyrja fjóra starfsmenn CCAA sömu spurningarinnar og fá fjögur ólík svör. Og til þess að flækja málin enn frekar þá hafi stafsmaður "matching" rétt fyrir sér í fjóra mánuði í röð og síðan fimmta mánuðinn þá sé það yfirmaðurinn sem hafi rétt fyrir sér.

Hún er viss um að það sé allavega einn aðili hjá CCAA sem viti hvað gengur á og að spænska umboðið sem hafi yfirleitt rétt fyrir sér hafi sambönd við þennan aðila.

Staðan er því þannig núna að það eru starfsmenn í "matching" sem segja að biðin verði að minnsta kosti 18 mánuðir, yfirmaður í "matching" segir að að hann sé engin spákona og það sé engin leið að spá fyrir um hvað biðið verði löng, síðan er það yfirmaður CCAA sem segir að hann vilji ekki að biðin fari yfir 12 mánuði og segir fólki að það muni fá upplýsingar innan þess tíma.

Síðan er það sem hún sagði í gær sem ég hef verið að velta fyrir mér síðan þá. Hún fullyrðir að hún hafi upplýsingar frá nokkrum ólíkum aðilum víðsvegar að sem segi að nokkur umboð hafi fengið í hendur lista yfir alla þá sem muni fá upplýsingar á þessu ári! Já einmitt, rétt lesið. Það sé til listi þar sem búið er að setja niður alla sem munu fá upplýsingar í ár. Ok ef þetta er rétt þá gefur það klárlega til kynna að CCAA sé með einhverja áætlun í gangi sem það fer eftir. RQ telur að ástæða þess að umboðin hafi ekki lekið þessum lista sé að þau vilji ekki vekja falsvonir hjá neinum. Hinsvegar þá ættu þessi sömu umboð að geta gefið út einhverja spá byggða á þessum listum og samkvæmt hennar vitund hafi enginn gefið út slíka spá. Þetta er allt hið furðulegasta mál og frekar með ólíkindum ef ég má segja svo.

RQ segir ennfremur að hvert og eitt umboð sé með aðgang að einum aðila í "matching". Einu sinni á ári rótera allir þannig að svissað sé um aðila til þess að ekki skapist "of gott" samband milli þessa aðila og umboðanna. Sumir þessara kontakt aðila gefi umboðum sínum fullt af upplýsingum meðan aðrir gefa nær engar. Sumir hafi góða yfirsýn snemma í mánuðnum hvernig hver mánuður kemur til með að líta út og láta sín umboð vita af því. Sumir giski hinsvegar of snemma og hafi því oft rangt fyrir sér. Enn aðrir gefi ekki út neinar upplýsingar fyrr en pörun er lokið. Málið sé hinsvegar þannig að þegar pörun sé lokið þá eigi þessir kontaktaðilar að hafa samband við sín umboð og gefa þeim upplýsingar og þar á meðal um lokadag sem upplýsingarnar ná yfir og hversu margar fjölskyldur séu með hverju sinni. Þannig sé hægt að leiðrétta villur ef einhverjar hafa orðið áður en upplýsingarnar eru sendar af stað. Hinsvegar virðist sem þetta sé að breytast í þá átt að búið sé að þjálfa eitthvað af nýja fólkinu þannig að það eigi ekki að gefa neinar upplýsingar og það sama fólk sé hrætt við að gefa sínum umboðum upplýsingar og þar af leiðandi séu sum umboð sem viti ekkert fyrr en þau fá pakkann með upplýsingunum hverju sinni. Þetta hljómar ekkert svo ósennilega finnst mér. Og niðurstaðan af þessu öllu sé síðan sú að umboðin séu á milli steins og sleggju: annarsvegar eru það skjólstæðingarnir sem krefjast upplýsinga (sem umboðin séu stundum með og stundum ekki) og hinsvegar séu þau hrædd við að styggja CCAA með því að veita of miklar upplýsingar.

Æi þetta er erfið veröld sem við búum í. Persónulega segi ég samt að ég vil vita hvar ég stend. Ég er upplýsingalæs og ég tel mig vera nógu þroskaða til að ekki þurfi að hlífa mér. Ég geri þá bara mín plön í samráði við þær upplýsingar sem ég hef hverju sinni. Þetta upplýsingaleysi er algjör píning og ekkert annað.