Meinvill og slúðrið

Slúður af netinu um tímasetningar sem upplýsingar berast frá Kína Okkar LID er 14 nóvember 2005

30 september 2006

Að velta sér upp úr dagsetningum

Ég ætla að nota þessa helgi og velta mér upp úr dagsetningum. Ég var að skoða spá sem ég gerði sem einhvern tíma í vor. Þar var ég með þrjár pælingar og sú þriðja var lang svartsýnust. Í henni er ég samt mánuði á eftir því sem raunveruleikinn er í dag (ég nenni ekki að birta spá 1 og 2 því þær eru svo fjarri raunverluleikanum að það er ekki fyndið):


Samkvæmt þessari spá myndi hópur 16 fá upplýsingar í janúar. Ef við bara færum allt aftur um einn mánuð þá væri það febrúar 2006. Ég veit ekki hvort það er eitthvað rökrétt og ætla því setja niður eitt excel með þremur mögulegum útkomum. Það er þó alla vega eitthvað til að velta sér upp úr.


Holland staðhæfir nefnilega (eitt umboð þar birtir þetta á vefsíðu sinni) að biðin muni smá saman lengjast í 24 mánuði og að CCAA hafi sagt þeim að þeir treysti sér ekki til að segja að það muni ekki fara fram úr því. Ðersónulega kemur mér það ekki á óvart. Þeir sem eru búnir að bíða lengst núna er að verða búnir að bíða 14 mánuði. Þeir al svartsýnustu í vor töluðu um að nóvember fengi sínar upplýsingar í nóvember.... 2007. Ég er nú ekki svona svartsýn en ég er heldur ekki svo bjartsýn að ég haldi að nú sé bara allt að smella í gang og það fari að birtast heilir mánuðir. Það erum við búin að halda í allt sumar og það hefur ekki gerst. Veruleikinn er allt annar. Hann er sá að það tekur frá tveimur og upp í fjóra mánuði að afgreiða hvern mánuð.

26 september 2006

Og biðin heldur áfram

Og jæja, þá er bara að halda áfram að bíða. Biðin heldur áfram að lengjast og verður ekkert auðveldari þó maður ætti að vera farinn að venjast þessu aðeins. Nú eru þeir þremur mánuðum og nokkrum dögum frá okkar LID dagsetningu. Það er hins vegar á hreinu að það mun ekki taka þrjá mánuði að fara yfir þessa þrjá mánuði. Miklu líklegra er að tíminn sé sex-átta mánuðir. Ef það eru sex mánuðir þá fáum við upplýsingar í mars, ef það eru átta mánuðir þá fáum við upplýsingar í maí. Einhverjir ofurbjartsýnir eru að tala um janúar og það væri óskandi en held því miður að það sé ekki raunhæft því þá verða þeir að afgreiða þessa þrjá mánuði á fjórum mánuðum. Ef við horfum á undanfarna mánuði þá tók það fjóra mánuði að afgreiða júlí og þessa nokkra daga af ágúst. Þannig að ég er ekki bjartsýn á að neitt gerist fyrr en næsta vor. Ég er sem sagt í þunglyndiskast þessa dagana!

25 september 2006

9. ágúst

Baby
YESSSSS það náði til 9. ágúst það eru 18 dagar

23 september 2006

Lagt af stað

Slúðrið segir að upplýsingar hafi verið sendar af stað á föstudag. Ef það er satt þá ættum við að vita lokadaginn á mánudag. Spennandi og aftur spennandi. Þetta er eins og í síðasta mánuði að umboðin eru ekki látin vita neitt en nokkur hafa samt staðfest að þetta sé rétt.

CCAA er enn að heimsækja Evrópu og lét hafa eftir sér í einhverri heimsókninni að nú séu um 20.000 umsóknir á einhverju stigi ferislsins hjá þeim. Smá pælingar út frá því. Ef rétt er að það það séu 2.000 umsóknir í október þá eru það 18.000 sem eru eftir og ef við deildum 13 mánuðum í það (sem er ca. núverandi bið) þá eru það um 1400 á mánuði. Það er skolli mikið. Hef samt meiri áhyggjur af þessum fjandans október mánuði sem er eins og múr fyrir framan nóvember.

22 september 2006

Rússíbaninn er kominn á fullt

Þá eru mánaðarlegar ferðir rússíbanans hafnar. Í gær fórum við hægt og hægt upp og í dag er það hvissandi ferð niður... eitt umboð lét skjólstæðinga sína vita af því í gær að ekki væri von á upplýsingum fyrr en en um miðjan okt. Það er opinbert frí í Kína fyrstu vikuna í okt og þetta umboð heldur því sem sagt fram að ekki verði neitt sent út fyrr en eftir þetta frí. Það er hinsvegar soldið á skjön við það sem Kína gerir oftast því þeir hafa haft fyrir sið að senda allt út og fara svo í frí. Á kommentakerfi RQ var fólk að spá í því hvort þetta tiltekna umboð væri kannski það sem þeir kalla "subagency" en það virkar þannig að viðkomandi umboð hefur ekki leyfi til að sinna ættleiðingum frá Kína og verður að fara í gegnum annað umboð. Þá fara upplýsingingarnar fyrst til þessa aðalaumboðs áður en þær berast þessu undir umboði og þá um leið tefst náttúrulega ferillinn. Ég vil trúa að þetta sé málið og þess vegna var þessi niðurleið í rússíbananum bara svona stutt braut og hann er á leið upp aftur...

21 september 2006

meira meira

Slúðurlega séð er þetta góður dagur og fullt af góðu slúðri. Nú er bara að vona að eitthvað því standist. TATER (þeir sem vita oftast það rétta) neita að gefa nokkuð upp og það er eflaust af því þeir hafa fengið skammir frá CCAA fyrir óþarfa lausmælgi. Þeir hafa því verið alveg harðir á því að gefa ekkert upp þenna mánuðinn en þó hafa þeir gefið svona ýmislegt smálegt frá sér: Þannig sögðust þeir ekkert geta gefið um hvenær upplýsingar munu birtast í þessum mánuði en báðu samt eins fjölskyldu að hringja á mánudag því þá vissu þeir svarið og þetta hefur því verið túlkað sem svo að á mánudag (eða í vikunni) ættu upplýsingar að vera komnar þannig að þeir geti svarað. Þeir sögðu líka við eina fjölskyldu með LID 28 júlí og hún væri pottþétt með núna. Þannig að eitthvað vita þeir þó þeir gefi ekkert upp.

Meira slúður

Ég ætlaði ekkert að skrifa meira í dag. Ég sá þetta í gær og fannst það ekkert merkilegt en það var ekki fyrr en áðan sem ég fattaði hvað þetta þýðir. Það er einhver manneskja sem fékk að vita hjá umboði sínu að hún gæti verið um jólin að ná í barnið. Hún er með LID 16 sept. Mér fannst þetta ekki neitt merkilegt en þetta er sko gott betur en merkilegt því til þess að geta verið um jólin í Kína þarf viðkomandi að fá upplýsingarnar sínar í síðasta lagi um miðjan október. Og hvað með það? Jú halló, hún er með 16 sept og þeir eru bara komnir að 22 júlí. það mundi þýða að það yrði gjörsamlega spýtt í lófana í þessari úthlutun og næstu líka. Halló, halló væri þetta ekki skemmtilegt?

Spennan eykst

Fólk er almennt að spá því að upplýsingar ættu að vera senda út öðru hvoru megin við helgina. Og það nýjasta er að þeir munu senda 15 daga eina og þeir hafa verið að senda.. en þeir hafa ekkert verið að því. Á síðasta 8 mánaða tímabili hafa þeir bara einu sinni sent 15 daga. En þetta fer alveg að skýrast. CCAA var á Spáni fyrr í mánuðinum og þar er haft eftir þeim að þeir vilji reyna að halda biðinni stöðugri við 14-15 mánuði. Í desember töluðu þeir um 12 mánuði þannig að það er svo sem ekkert rosa breyting. Okkar hópur 15 er núna á 14 mánuði þannig að þar bíða allir í ofvæni eftir fréttum. Og ég bíð eftir að þau fái fréttir svo ég geti sagt að ég sé NÆST!!! Þó svo að það sé ekki fyrr en eftir marga, marga mánuði.

Barnsrán

Fjölmiðlar í Uk og USA fóru mikinn í gær og fjölluðu um meint barnsrán, þ.e.a.s. börnum sem er rænt í Kína og þau seld til annarra og jafnvel í erlendar ættleiðingar. Hér er linkur inn á eina fréttastofuna. Þetta eru ljótar fréttir og skelfilegt að lesa þetta. Mér skilst að fjölmiðlar í Bretlandi hafi farið hamförum í gær yfir þessu og farið sérstaklega inn á "sum þessara barna gætu hafa verið ættleidd til Vesturlanda". Hinsvegar er fólk nokkuð smmála að hér sé um að ræða fréttamann sem vill fá sínar 15 mínútur af frægð hvað sem það kostar og hann sé því að blása upp efni sem vissulega er þarft að fjalla um en þyrfti að gera á mildari hátt. Hann fjallar aðallega um að drengjum sé rænt og selt til fólks sem vilji eignast drengi. Þetta er eitthvað sem hefur verið stundað um aldir í Kína og meðan þessi einstefnubarns regla er í gildi þá verður þetta því miður alltaf til staðar. Kínverjar eru hinsvegar mjög vakandi fyrir þessu og reyna að stoppa það með öllum ráðum samanber Hunan málið en þaðan er rétt byrjað að ættleiða aftur eftir að upp komst um svona mál þar síðasta haust.

20 september 2006

Lokadagsetningar

Þar sem ekkert nýtt slúður er á ferðinni ennþá þá ákvað ég að renna yfir hvaða daga við teldum líklega sem lokadag. Það voru ekki margir sem svöruðu en þetta var niðurstaðan:
28. júlí 1
6. ágúst 1
8. ágúst 1
18 ágúst 5

Nokkrir voru með vara dagsetningar en við tökum þær ekkert með.

19 september 2006

Enn um Tater

Fleiri hafa haft samband við Tater og þeir neita að gefa út hvað þeir halda að sé lokadagsetning. Almennt er talið að þeir viti það en megi ekki segja það. Það er því frekar hæpið að 15 sé rétt þar sem þeir vilja ekki staðfesta það og neita að gefa öðrum upp dagsetningu. En svona á betri nótunum þá eru þeir víst byrjaðir að para þannig að upplýsingarnar ættu að koma eftir ca viku; annaðhvort í lok þessarar viku eða einhvern tíma í næstu viku sem er sennilegra. Guð hvað ég vona að þeir klári alla vega júlí mánuð. Þá eru bara 3 og hálfur mánuður að mínu LID. Ég verð dauð áður en að því kemur.

Desember kominn úr review

Já ekki tók það langan tíma, sýnir bara að það hefur verið eitthvað fast með nóvember og hann er eflaust soldið mikið stærri en des ;(

Til hamingju des ef það eru einhverjir með Lid hér.. ég veit ekki hvenær hópur 17 er með LID veit það einhver?

Eitthvað á reiki

Það er nú eitthvað á reiki með það hvað hægt er að lesa út úr því sem Tater segir um 15. Mér skilst að það megi lesa hvað sem er út úr því sem þeir segja en talan 15 kemur þar inn í. Sem sagt þetta er eitt af þremur: a) Upplýsingar ná til 15 ágúst. b) Upplýsingar ná yfir 15 daga c) upplýsingar koma eftir 15 daga.

Þetta er svoldið skrítið en þetta er víst orðað svo loðið að það er ekki nokkur leið að að fá nokkuð úr þessu. Spænskumælandi fólkið segir að við skulum bara trúa því besta af þessu og sem hentar okkur best og ég vel því lið a, 15 ág. ;)

18 september 2006

Spenningur

Svo virðist sem Tater (gælunafnið á þessu spænska sem hefur yfirleitt rétt fyrir sér) hafi látið fara frá sér að það gæti verið..endurtek gæti verið að næstu upplýsingar næðu til 15 ágúst. Gæti verið..gæti verið.. Þetta er spennandi.. það er sko allt betra en 28 júlí sem ég bara neita að trúa...

17 september 2006

Kínverskunámskeið

Ég skráði mig á kínversku námskeið hjá Mími en held að það séu mjög fáir þátttakendur þannig að ekki er víst að það verði af námskeiðinu. Ég óska hér með eftir fleiri áhugasömum nemum til að læra með mér á mánudagskvöldum...
SmileyCentral.com

Draumar

Ég segi nú ekki draumfarir mínar sléttar. Í nótt dreymdi mig að ég var að skippuleggja gönguferð á Geysi sem í draumnum var staðsettur í Þórsmörk í tveggja tíma fjarlægð frá Rvík. Þetta átti að vera mikið húllumhí og til þess að þetta yrði nú alveg eins flott og hægt væri var ég búin að finna þennan fína leiðsögumann sem vildi glaður taka að sér verkið. En þegar ég var í miðju kafi við að semja við manninn og segja vinkonu minni SM hvar tjöldin ættu að vera birtist Gilla alveg fokvond og segir að ég skuli bara slaufa þessu því það eigi enginn eftir að mæta því CCAA hafi verið að birta upplýsingar og þær hafi bara náð til 28.júlí. Það séu því allir í þunglyndi og hún geti fullyrt að það muni enginn mæta. Og við það vaknaði ég.Mig er sem sagt farið að dreyma dagsetningar bæði í svefni og vöku. SmileyCentral.com

Ég fór inn á heimasíðu Brian Sturgys áðan (eða hvað hann nú heitir) og þar er hann með lista yfir lengd biðtíma frá jan 2005 til ág 2006. Í jan voru það 180 dagar en í ágúst voru þeir komnir upp í 45og eitthvað daga... eins og við vitum en það er samt bömmer að sjá þetta svona í lista..

Ég hef verið að sjá tilkynningar frá fólki í desember, feb 06 og núna síðast mars 2006 að það sé verið að hafa samband við þau út af frekari upplýsingum. Þessi kona í mars 06 er einhleyp og CCAA vildi fá einhverjar nánari heilsufars og þyngdarupplýsingar. Já gamanið heldur sem sagt áfram!

15 september 2006

Flott samsæriskenning

Ég rakst á flottustu samsæriskenningu sem ég hef séð lengi og hún er líka ofurjákvæð og þess vegna verður hún bara að birtast hér. Set hana upp bara eins og hún var skrifuð:
"...Mín persónulega skoðun er sú að biðtíminn í Kína fari eftir fjölda SN barna. Þegar biðtíminn er mjög stuttur (6 mánuðir) þá er mikill fjöldi SN barna sem enginn vill ættleiða vegna þess að fjöldi fólks velur ekki þá leið ef þeir vita að biðtíminn er sá sami hvort sem þú velur SN eða NSN. Þegar biðtíminn hefur verið stuttur í einhvern tíma eins og hann var síðasta vetur þá hefur fjöldi SN barna aukist mjög mikið og þá verður að breyta biðtímanum þannig að fólk velji það að fara SN leiðina líka. Ég held að sé örugglega hægt að fullyrða að fjöldi fjölskyldna sem eru tilbúnar til að ættleiða SN börn hefur aukist eftir því sem biðtíminn hefur lengst (u.þ.b. 15% samkvæmt lauslegri ágiskun RQ). Um leið og við komust í biðtíma sem er lengri en 14 mánuðir þá held ég að vandamálin verði of mörg fyrir Kína: fjöldi umsókna, óhamingjusamar fjölskyldur í bið, stressuð umboð, halda þarf utan um útrunnin I-171 (á við um USA) og svo framvegis. Þess vegna held ég að Kína viti að allt sem fer umfram 14 mánuðina sé alls ekki þess virði þegar reiknað er með öllu auka umstanginu sem því fylgir. Ég held að þeir hafi í upphafi ætlað að lengja aðeins tímann þannig að hann væri ekki svona rosalega stuttur (6-7 mánuðir) en margt hafi komið inn í sem ekki hafi verið reiknað með, eins og t.d. Hunan atburðirnir, ákveðnir staðir þar sem ekki eru eins mörg börn yfirgefin eins og áður og margt fleira. Og þess vegna hafi verið erfiðara hjá þeim en reiknað var með að hafa stjórn á biðtímanum. Ég vona að þeir hafi skilning á þeim faktorum sem snúa að biðinni og nái að halda biðtíma í 12-14 mánuðum en ég er hræddur um að þeir viti ekki neitt. Innst inni held ég að þeim finnst það vera eðlilegur biðtími og þeir séu að ströggla við að reyna að halda honum þar..."

Svo mörg voru þau orð. Þetta er ekki verri kenning en hvað annað. Það eru þó nokkrir sem hafa skipt um leið eftir því sem biðtíminn hefur aukist og hafa svissað yfir í SN leiðina. Mér finnst ég líka hafa séð aftur og aftur að Kína vilji hafa biðtímann nálægt 12 mánuðum. Hópur 15 hjá okkur er alveg að skríða yfir í 13 mánuðina ;((

12 september 2006

Giskum á næsta lokadag

Hey hvernig væri að fá upp smá ágiskun um hvenær þið teljið að næsti lokadagur verði. Allflest umboðin eru svartsýn og segja að það verði 28 júlí. Nokkrir segja 18 ágúst og nokkrir segja 8 ágúst af því það er happatala..8.8.

Mig langar að giska á að það verði 6 ágúst af því það eru 15 dagar, ég verð bara að trúa að þeir geri ekki minna en hálfan mánuð í einu að síðasti mánuður hafi verið undantekning vegna flutninga. Hvað segið þið?

Smá tölulegar pælingar

Ég rakst á þessar pælingar á netinu. Þetta er frá evróvsku umboði og ég held að það sé norskt. Í síðustu upplýsingum til þeirra komu nokkrir drengir og þeir benda því fólki á að búa sig undir að það geti allt eins verið að það komi drengur. Þeir segja þó að það hafi aldrei komið fyrir að einhleyp kona hafi fengið dreng, eina skiptið sem einhleypingur hafi fengið dreng hafi verið einhleypur karlmaður (ath.vert, hafa einhleypir karlar sótt um frá Íslandi??). Síðan koma þeir með smá tölulegar upplýsingar um aldur barnanna sem hafa komið á þessu ári:
Um það bil 50 börn hafa komið til þeirra á þessu ári: þar af hafa um það bil 5 börn verið nálægt 2 ára (23 og 24 mánaða). Af þessum 5 börnum voru 2 drengir. Þeir segja að eldri börnin fari yfirleitt til eldri foreldra og með eldri foreldrum þá benda þeir á foreldra þar sem báðir aðilar eru nálægt fimmtugu.
15 af þessum 50 börnum voru á milli 8-12 mánaða þegar þau komu til landsins og restin (umþað bil 30 börn) voru á milli 13-20 mánaða. Meðalaldur þessara 50 barna var um 15 mánuðir.
Þeir segja einnig að það virðist vera tilhneigin til þess að drengir sem koma frá Kína séu oft einhverjum mánuðum eldri en stúlkubörnin.
Þeir ljúka þessari umræðu með því að segja að þeir telji ekki rétt að það fari að koma yngri börn eftir því sem biðtíminn eykst. Þvert á móti séu meiri líkur á að börnin verði eldri því yngri börnin séu ættleidd heima fyrir. Annað sem gæti haft áhrif á þetta sé að nú séu komin inn fleiri heimili sem ekki hafi áður tekið þátt í erlendum ættleiðingum og þar séu oft eldri börn.

Skemmtilegar pælingar. Auðvitað er maður alltaf að spá í aldurinn, allavega þá geri ég það ;)

11 september 2006

Stöðugleika orðrómur

Nýjasti orðrómurinn er alveg í tengslum við lið fjögur hér að undan, upplýsingarnar frá honum Claude. það eru sem sagt fleiri en einn og fleiri en tveir búnir að láta skjólstæðinga sína vita að biðin fari alveg að verða stöðug. Þannig segir eitt umboð að Mars 2006 LID muni líklega bíða í 14 mánuði meðan næsta segir að biðin verði 18 mánuðir. TATER (þessi sem yfirleitt hefur rétt fyrir sér) segir enn að biðin verði 18 mánuðir en þessi sem segir 14 mánuðir sagði víst áður 18 mánuðir þannig að það umboð er búið að lækka sig. Verð að viðurkenna að mér finnst þetta spennandi upplýsingar. Þetta er langt frá því að vera staðfest, sérstaklega ef við horfum á þá staðreynd að 25 sept verða þeir sem eru búnir að bíða lengst búnir að bíða í 14 mánuði.

10 september 2006

Margt smátt

Það er nú ekki mikið af slúðri þessa dagana en þó er alltaf eitthvað. Það reikna flestir með að upplýsingar gætu farið að berast í lok næstu viku. Það helsta sem er á ferðinni er þetta:
1. Flest umboðin sem spá einhverju segjast reikna með að næstu upplýsingar munu aðeins ná til 28 júlí. Ef það er satt þá er það afspyrnu lítið því það eru aðeins 4 vinnudagar því 23 og 24 voru helgi. Og ef það er satt þá tekur það fjóra mánuði að klára júlí og það boðar ekki gott fyrir komandi mánuði.
2. Eitt evróskt umboð segir þó að upplýsingar muni ná til 18 ágúst. Það hinsvegar finnst mér því miður afskaplega hæpið. Það væri óskandi en miðað við árangur síðustu mánaða þá er það lítil von. Það eru hinsvegar fekar fáar umsóknir í fyrrihluta ágúst þannig að fræðilega ætti þetta að vera hægt.
3. Annað evróvskt umboð hefur lýst því yfir að það telji mjög stutt í að biðtíminn verði 18 mánuðir og að það sé líklegt að des LID fái upplýsingar í júní á næsta ári. Þeir segja einnig að þeir séu ekki vissir um að allur júlí verði með næst.
4. Claude vinur minn hinn kanadíski pestaði umboðið sitt í vikunni og þeir fullyrða að þeir viti eitthvað sem þeir meigi ekki láta uppi á þessari stundu (alltaf þessi leyndarmál!!) en hlutirnir séu alveg að fara að breytast til hins betra. Hann spurði hversu fljótt þeir héldu að það gerðist en þeir neituðu að svara þannig að hann segist viss um að þeir hafi ekki hugmynd um það. Spurning hvort þeir viti eitthvað eða séu bara að halda honum góðum???

05 september 2006

Hugleiðingar

Ég er áskrifandi af yahoo grúbbu þar sem hægt er að spyrja spurninga um Kína og Kínatengd atriði. Í síðustu viku spurði einhver eiganda grúbbunnar hvort hún hefði einhverja skoðun á því hvers vegna hægt hefði svona á ættleiðingarferlinu í Kína (hún er Ameríkani búsett í Kína og hefur ættleitt eina dóttur frá Kína og vinnur við að skipuleggja ferðir í Kína tengdar ættleiðingum). Hún telur að eftirfarandi atriði geti átt sök á þessum töfum:
  1. Það er ekki mjög langt síðan CCAA tók við ábyrgð á öllum munðarleysingjaheimilunum í Kína en þau eru 1000 og dreifð um allt landið. Af þeim eru “aðeins” 250 sem hafa leyfi til að ættleiða erlendis. CCAA hefur þurft tíma til að aðlaga sig að því að hafa fengið þessa viðbót við sitt starfsvið.
  2. Ættleiðingar innanlands í Kína hafa aukist og njóta stuðnings stjórnvalda.
  3. Fjölmiðlaumfjöllunin um Hunan barnsmálin hefur haft þau hliðaráhrif að CCAA hefur mun miklu meira að gera.
  4. Það er ábyrgðarhluti hjá CCAA að hægja á hlutunum til þess að geta þjálfað starfslið sitt upp til að sinna hinni auknu ábyrgð CCAA, til þess að hafa tíma til að þjálfa nýtt starfslið og til þess að vera í startholunum ef innlandsættleiðingarnar aukast að miklu magni.
  5. Það er ólíklegt að ættleiðingar erlendis hætti því ættleiðingarnar skapa miklar tekjur
  6. Nú er því hlutverk CCAA að líta eftir öllum börnum á munaðarleysingjaheimilum í Kína ekki bara börnum á þeim heimilum sem sinna ættleiðingum erlendis.

Já svo mörg voru þau orð. Það hefur hægt mjög mikið á ferlinu. Svo mikið að það þorir varla nokkur maður að vera með bjartsýnisspár lengur. Þó er það athyglisvert að enn er eitt umboð sem spáir því að þeir sem eru með LID í des ættu að fá upplýsingar í des. Það er því miður ekki fræðilegur möguleiki því til þess að það ætti að vera hægt þurfa þeir að auka afköst sín um mörg hundruð prósent á mánuði og ef það er rétt að það séu ekki nógu mörg börn tilbúin til ættleiðingar (hefur eitthvað að gera með pappírsmál) þá geta þeir ekki aukið afköstin að neinu magni. Mér finnst eins og verið sé að gera grín að fólki með því að vera að veifa þessum desember fram. En ekki eru svartsýnisspárnar betri. Þó nokkur umboð hafa þegar lýst því yfir að þau reikni ekki með því að júlí klárist næst heldur nái upplýsingar aðeins til 28 júlí. Ef það reynist rétt þá fara þeir yfir júlí á fjórum mánuðum.. en hvort sem þeir ná júlí öllum eða ekki þá er það staðreynd að þeir eru alla vega þrjá mánuði að fara yfir hann og það virðist vera tíminn sem er kominn til að vera. Sama hvort okkur líkar það betur eða verr. Hinsvegar er augljóst að þetta er ekki tími sem verður lengi þannig, á einhverjum tímapunkti verður hægt að auka hraðann aftur því annars hættir fólk að sækja um. Fólk sem er að sækja um núna er að horfa á a.m.k. þriggja ára bið með þessu áframhaldi og það gengur ekki alveg upp. Það er bara spurning á hvaða tímapunkti þeir fara að hraða sér. Persónulega tel ég að það verði ekki fyrr en eftir áramót. Ég er að dunda mér við að skoða hvenær þetta hægðist svona mikið og ætla að setja fram einhverjar hugleiðingar um það á morgun reikna ég með.

01 september 2006

Gleðilegur póstur

það beið mín æðislegur póstur er ég mætti í vinnuna í morgun. Hann var frá Pálínu þar sem hún benti á þetta:


yesssssss yessssss Við erum loksins, loksins, loksins komin út úr þessu fjand*** skoðunarherbergi. Nú getum við beðið með bros á vör eftir því sem gerist næst.

TIL HAMINGJU HÓPUR 16!!!!!!!!!!!!